Skarphéðinn Berg Steinarsson segir að dómur Hæstaréttar í máli þrotabús Baugs Group gegn honum komi sér á óvart. Hæstiréttur rifti í gær greiðslum Baugs Group til Skarphéðins um kaup á hlutafé hans í BGE Eignarhaldsfélagi. Skarphéðinn á því að greiða þrotabúinu 104,6 milljónir króna með dráttarvöxtum. „Héraðsdómurinn var afdráttarlaus í hina áttina, en Hæstiréttur kýs að fara aðra og óhefðbundna leið. Niðurstaða Hæstaréttar kom mér á óvart.“ Aðspurður segist Skarphéðinn ekki vilja tjá sig um það hvernig hann muni greiða féð. „Ég er sannarlega ekki eignamaður og það var öllum ljóst áður en farið var í þessa vegferð.“

Skarphéðinn var ráðinn til Baugs árið 2002 og var einn af framkvæmdastjórum félagsins. Hann keypti hlut í Baugi og BGE Eignarhaldsfélagi, en það félag var í eigu tiltekinna starfsmanna Baugs. Tilgangur þess var að fjárfesta í hlutabréfum í Baugi Group. Í júní 2007 var Skarphéðinn ráðinn forstjóri Fasteignafélagsins Stoða, síðar Landic Property. Af því tilefni gerði hann starfslokasamning við Baug Group sem fól í sér uppgjör vegna kaupa á hlutafé og vegna kaupréttar á hlutabréfum í Baugi og hlutafjáreign í BGE Eignarhaldsfélagi. Skarphéðinn seldi hlutafé sitt í Baugi Group og fékk greitt fyrir með hlutafé í Stoðum. Hann átti þá enn hlut sinn í BGE. Þann 1. september 2008 keypti Baugur Group allt hlutafé hans í BGE og fékk hann greitt í tveimur greiðslum alls 104,6 milljónir króna.

Hæstiréttur segir í dómnum að greiðslurnar hafi verið örlætisgerningur af hálfu Baugs Group því hlutabréf Skarphéðins í BGE hafi verið verðlaus þegar þær voru inntar af hendi. Því er greiðslunum rift.