Hæstiréttur rifti í dag kaupum BGE Eignarhaldsfélags á kaupum á hlutabréfum Skarphéðins Bergs Steinarssonar í Baugi og dæmdi hann til að endurgreiða 104 milljónir króna auk vaxta. Við þetta leggjast svo 2,5 milljónir króna í málskostnað. Héraðsdómur hafði áður sýknað Skarphéðinn af kröfu þrotabúsins. Um er að ræða tvær greiðslur frá Baugi vegna kaupa á hlutabréfum hans í gegnum BG Eignarhaldsfélag sem hélt utan um hlutabréfaeign starfsmanna. Félagið lánaði starfsmönnunum sömuleiðis fyrir kaupunum.

Skarphéðinn var framkvæmdastjóri hjá Baugi um fimm ára skeið en var ráðinn forstjóri fasteignafélagsins Stoða, síðar Landic Property, í júní árið 2007. Við það gerðu Skarphéðinn og Baugur samning sem fólu í sér uppgjör „vegna kaupa á hlutafé“ og vegna „kaupréttar á hlutabréfum í Baugi Group hf. og hlutafjáreign í BGE Eignarhaldsfélagi ehf.“ Samningurinn fól í sér að Baugur keypti hlutabréf Skarphéðins í Baugi og fékk hann greitt fyrir með hlutafé í Fasteignafélaginu Stoðum. Í mars ári síðan fór hann svo þess á leit að gert yrði upp við hann vegna hlutafjáreignarinnar í BGE Eignarhaldsfélagi um sama leyti þurfti hann að standa skil á vaxtagreiðslu vegna láns sem hann tók til hlutabréfakaupa. Af þessu tilefni var innt af hendi greiðsla í þágu stefnda að fjárhæð 205.000 evrur, að því er fram kemur í dómi Hæstaréttar.

Um haustið var svo gengið frá greiðslu til Skarphéðins. Hann fékk 60 milljónir króna 3. september árið 2008 og 44,5 milljónir 27. október.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til matsgerðar sem var gerð á stöðu Baugs á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi til Skarphéðins. Þar kemur m.a. fram að allt eigið fé BGE Eignarhaldsfélags verið uppurið og eignarhlutur í félaginu verðlaus. Því hafi um örlætisgerning að ræða og Skarphéðinn dæmdur til að endurgreiða féð.

Dómur Hæstaréttar