Í síðustu viku kynnti kærunefnd útboðsmála þá niðurstöðu sína að ríkið hafi brotið á flugfélaginu Iceland Express í útboði um flugsæti til og frá Íslandi. Rammasamningur var gerður við bæði Iceland Express og Icelandair í kjölfar útboðsins en Iceland Express vildu meina að ekki hefði átt að taka dýrara tilboði Icelandair. Útboðið sem um ræðir var haldið í tvígang en í millitíðinni var útobðslýsingunni breytt og meðal annars gert heimilt að nota vildarpunkta í tilboðum.

Þegar gengið var frá útboðinu í mars 2011 voru tilboð bjóðenda hvorki lesin né birt. Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Iceland Express, segir að í kjölfarið hafi fyrirtækið krafist þess að fá aðgang að tilboði Icelandair en Ríkiskaup höfnuðu þeirri beiðni. „Og það var ekki fyrr en úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði úrskurðað um að við ættum að fá að sjá hitt tilboðið sem okkur varð ljóst að það var ekki í samræmi við útboðslýsinguna. Það var þá sem við kærðum þetta til kærunefndarinnar,“ segir Skarphéðinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.