Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs á Norðulöndum, segir í samtali við dönsku fréttastöfuna Ritzau að ekki sé óhugsandi að fjárfesta í móðurfélagi dagblaðsins Berlinske Tidende, Orkla Media.

Hann tekur þó fram að viðræður við Orkla hafi ekki átt sér stað og að kaup Dagsbrúnar, sem Baugur er hluthafi í, séu getgátur.

Haft var eftir Þórdísi J. Sigurðardóttur, stjórnarformanni Dagsbrúnar, í fréttum Sjónvarpsins um helgina, að félagið hefði áhuga á að fjárfesta í Orkla Media.

Sagðist Þórdís ekki vita til þess að dagblöð séu borin í hús til fólks án endurgjalds annars staðar á Norðurlöndunum og því sé ætlunin að nota það viðskiptamódel sem Fréttablaðið byggir á til að láta til sín taka á dönskum blaðamarkaði.