Skartgripa- og gjafavöruverslunin Jens hefur tekið til sölu skartgripi eftir Hansínu Jens en hún hefur um árabil hannað skartgripi undir vörumerki sínu HJ.  Skartgripir Hansínu fóru aftur í sölu eftir að sættir náðust í máli Hansínu og Jóns Snorra Sigurðssonar, hálfbróður hennar, sem rekur skartgripaverslunina Jens. Eins og VB greindi frá deildu fyrir dómstólum um réttinn yfir tveimur skráðum vörumerkjum, sem bæði heita JENS

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hönnun Hansínu er til sölu hjá Jens. Fyrirtækið var stofnað árið 1965 af hjónunum Ingibjörgu Ólafsdóttur og Jens Guðjónssyni og tóku börn þeirra Jón Snorri og Hansína þátt í hönnun og skartgripasmíði allt frá fyrstu tíð fyrirtækisins. Jón Snorri tók við rekstri þess árið 1996 en Hansína byrjaði að selja hönnun sína í eigin verslun árið 1998.

Jón Snorri starfar enn af fullum krafti hjá fyrirtækinu ásamt dætrum sínum tveimur. Ingibjörg Snorradóttir sér um reksturinn og Berglind Snorra starfar við gullsmíði og vöruhönnun.

„Jens hefur frá upphafi verið mikið fjölskyldufyrirtæki og við erum ánægð með að fá Hansínu aftur í lið með okkur“ segir Ingibjörg Snorradóttir, framkvæmdastjóri Jens, í tilkynningu. Hún bætir við að hönnun hennar sé góð viðbót við það mikla úrval af skartgripum og gjafavöru sem fyrirtækið hefur að bjóða. Valdir hlutir úr vörulínu Hansínu verða til sölu í verslun Jens í Kringlunni.