Afskriftir skattkrafna námu alls 14.409 milljónum króna á árinu 2011 sem er 2,9% af heildartekjum ríkissjóðs. 80% af þeim kröfum eru afskrifaðar hjá fyrirtækjum en þetta er lækkun frá fyrra ári um 522 milljónir. Fjárframlög gerðu ráð fyrir 10.000 milljónum í afskriftir skattkrafna en Gunnar H.Hall fjársýslustjóri segir ógerlegt að áætla þessar upphæðir fyrirfram en kröfurnar ná yfir nokkur ár. Árið 2009 var afskriftahlutfallið óeðlilega hátt eða 6,8% af tekjum ríkissjóðs og endurspeglar það mikla erfiðleika hjá einstaklingum og fyrirtækjum í kjölfar bankahrunsins

Gunnar segir að í reynd sé mjög sérstakt að birta afskriftir af skattkröfum á gjaldahlið í reikningum ríkisins. Ákveðið var að birta þessar tölur með fjárreiðulögunum árið 1998 til að auka gegnsæi, en fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa bent á og talið eðlilegra að lækka tekjur um sem nemur afskriftunum.