*

miðvikudagur, 8. apríl 2020
Innlent 24. nóvember 2019 15:04

Skattaafsláttur örvi hlutabréfamarkað

Þingmaður og forstjóri Kauphallarinnar telja mikilvægt að veita skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa, til að dýpka markaðinn.

Sveinn Ólafur Melsted
Óli Björn Kárason og Magnús Harðarson.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum þá stefna nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að því að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt. Frumvarpið felur í sér að einstaklingum sé veitt heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóða sem eru skráðir á skipulegan verðbréfamarkað, eða fjárfesta eingöngu í skráðum hlutabréfum.

Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið hér á landi, sem starfshópur á vegum fjármálaráðherra skilaði af sér fyrir tæpu ári síðan, setur starfshópurinn m.a. fram nokkur markmið sem stefna ætti að til þess að efla virkni fjármálamarkaða. Eitt þeirra markmiða snýr að því að auka þátttöku almennings á fjármálamarkaði. Í kaflanum þar sem fyrrgreint markmið kemur fram segir að ein afleiðing hrunsins árið 2008 hafi verið sú að íslenskur almenningur hafi glatað trausti á íslenskum mörkuðum og stofnunum, s.s. hlutabréfamarkaðinum og krónunni, og jafnvel hagkerfinu í heild sinni. Það hafi svo m.a. orðið til þess að almennir fjárfestar hafi tekið tiltölulega lítinn þátt á fjármálamarkaðinum á síðari árum.

„Það er í sjálfu sér ekki heppilegt að „venjulegt fólk" eða litlir fjárfestar séu að taka mikla fjárhagslega áhættu með stöðutökum á fjármálamarkaði. Hið upprunalega heiti yfir fyrirtæki á hlutabréfamarkaði var einmitt almenningshlutafélög. Enginn hlutabréfamarkaður stendur undir nafni nema almenningur eigi þar aðkomu - og hann sé aðeins vettvangur fyrir stofnanafjárfesta eða einhverja fjármálaelítu. Á sínum tíma þegar hlutabréfamarkaðurinn var byggður upp á tíunda áratug tuttugustu aldar var almenningur hvattur til hlutabréfakaupa með skattahvötum. Það má því vel velta þeirri hugmynd upp að endurtaka leikinn og hvetja þannig fleiri aðila til að taka þátt í markaðinum," segir jafnframt í Hvítbókinni.

Því leggur starfshópurinn til að gefinn verði skattalegur hvati til almennings til þess að kaupa hlutabréf. Bendir hópurinn á að þar sem skattskil séu að mestu leyti orðin rafræn - öfugt við það sem var á tíunda áratug tuttugustu aldar - séu ýmsir möguleikar til þess að útfæra þessa hvata. En þeir myndu miðast við að fólk yrði langtímafjárfestar í ákveðnum sjóðum eða einstökum félögum.

Lengi staðið til að leggja fram frumvarpið

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, og einn flutningsmanna frumvarpsins, segir að lengi hafi staðið til að leggja fram frumvarpið og því sé ánægjulegt að nú styttist í framlagningu þess.

„Það hefur alltaf verið markmið okkar hjá Sjálfstæðisflokknum að almenningur taki með beinum hætti þátt í íslensku atvinnulífi. Við erum með þessu að reyna að byggja undir það. Sömuleiðis viljum við stuðla að virkari hlutabréfamarkaði hér á landi. Það er mjög mikilvægt að tryggja að hér sé starfandi virkur hlutabréfamarkaður. Það má aldrei vanmeta mikilvægi þess í frjálsu hagkerfi að það sé til virkur hlutabréfamarkaður - bæði fyrir fyrirtæki sem eru stór og öflug, en ekki síður fyrir litlu fyrirtækin sem eru að byggja sig upp og þurfa á áhættufé að halda."

Eins og áður hefur komið fram vonast flutningsmenn frumvarpsins til að skattaafsláttarheimildin víkki út á komandi árum. Í því samhengi vonast Óli Björn til þess að fólki verði á ný gert kleift að stofna svokallaða stofnfjárreikninga.

„Hér á árum áður voru til sérstakir reikningar sem kölluðust stofnfjárreikningar. Þessir reikningar voru hugsaðir þannig að fólk gæti lagt á hverju ári tiltekna fjárhæð til hliðar, fengið skattaafslátt og eftir ákveðinn tíma þurfti viðkomandi svo að fjárfesta uppsafnaðri fjárhæð í stofnun nýs fyrirtækis. Þetta auðveldaði fólki sem gerði sér vonir um að stofna sinn eigin rekstur að gera það að veruleika."

Óli Björn kveðst bjartsýnn á að frumvarpið fái góðar móttökur frá þinginu.

„Ég vonast til þess að þingmenn nálgist málið með þeim hætti að þeir átti sig á því hversu mikilvægt það er að gefa almennu launafólki kost á því, með skattalegum ívilnunum, að taka þátt í íslensku atvinnulífi, með þeim hætti að eiga og kaupa hlutabréf. Það ýtir einnig undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga, sem er eitthvað sem við viljum alltaf vera að vinna að."

Of fáir fjárfestar á markaðnum

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, tekur undir með Óla Birni að frumvarpið sé mikilvægur þáttur í að stuðla að virkari hlutabréfamarkaði á Íslandi.

„Okkur hjá Kauphöllinni líst mjög vel á þær fyrirætlanir sem koma fram í frumvarpinu. Það eru alltof fáir fjárfestar á íslenska markaðnum, sem er ekki bara slæmt fyrir fyrirtækin sem vilja afla sér fjármagns heldur einnig fyrir fjárfesta á markaðnum. Ef markaðir hafa of fáa fjárfesta þá skrá færri félög sig á markað, sem veldur því að fjárfestingakostum fækkar. Á markaði þar sem þátttaka einstaklingsfjárfesta er lítil, eiga smærri fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sömuleiðis erfiðara með að sækja sér fjármagn heldur en ella. Einstaklingar eru yfirleitt virkari í að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum og svo er það einnig svo að lífeyrissjóðir og aðrir stærri fjárfestar hafa ákveðinn stærðarþröskuld - það borgar sig ekki fyrir þá að fjárfesta í fyrirtækjum nema þau séu stór í sniðum," segir hann.

Magnús segist vilja ganga enn lengra í þátttöku almennings en í frumvarpinu er lagt til, t.d. með því að einstaklingar hefðu möguleika á að fjárfesta fyrir hluta af séreignarsparnaði sínum.

„Fyrirtæki sem eru skráð á markað og eru að leita sér að fjármagni, og þeir sem eru að leita sér að fjárfestingatækifærum, myndu hafa hag af því að hluti af séreignarsparnaðinum yrði færður í frjálsari ráðstöfun. Mér þykir það einnig eðlilegt í ljósi þess að slíkur sparnaður er algjörlega valkvæður."

Nasdaq Iceland er í norrænu samstarfi sem hluti af Nasdaq Nordic. Að sögn Magnúsar eru hin Norðurlöndin þegar með eða eru að taka upp skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa almennings.

„Skattaafslátturinn hefur í gegnum tíðina verið myndarlegastur í Svíþjóð og Finnar munu svo nú um áramótin innleiða slíkan afslátt í löggjöf sína. Hjá hinum Norðurlöndunum er útfærsla skattaafsláttarins öðruvísi en frumvarpið leggur til að verði hér á Íslandi. Í því er lagt til að taka aftur upp gömlu aðferðina sem var við lýði hér á landi á árum áður. Þetta útfærsluatriði skiptir þó ekki öllu máli í stóra samhenginu.

Stjórnvöld Norðurlandaþjóðanna hafa séð þjóðhagslegt gildi þess, bæði fyrir einstaklinga og fyrir fyrirtækin sem eru að leita sér að fjármögnun, að veita slíka ívilnun. Skattaafslátturinn var mikið nýttur hér á Íslandi á sínum tíma. Þó að það hafi kannski ekki verið há fjárhæð sem hver fjölskylda fjárfesti fyrir, þá safnaðist þetta í gegnum árin upp í fjárhæðir sem skiptu verulegu máli. Það er oft sagt að margt smátt geri eitt stórt, en það er eitthvað sem hefur kannski verið vanmetið á íslenska markaðnum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér