*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Innlent 21. nóvember 2019 10:57

Skattaafslátturinn endurvakinn?

Nú á næstunni verður frumvarp lagt fram á Alþingi þar sem skattalegir hvatar til hlutabréfakaupa fyrir almenning eru innleiddir.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Nú á næstunni stefna nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að því að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt. Frumvarpið felur í sér að einstaklingum sé veitt heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfaog hlutabréfasjóða sem eru skráðir á skipulegan verðbréfamarkað, eða fjárfesta eingöngu í skráðum hlutabréfum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að frumvarpinu.

Í drögunum segir einnig að frumvarpið byggi á grunni þágildandi 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt, en ákvæðinu um skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa almennings var bætt við lögin í lok níunda áratugarins, en svo fellt úr lögunum árið 2002. Þegar lögin hafi verið sett á sínum tíma hafi verið miðað við eignarhald á hlutabréfunum í þrjú ár og við það sé sömuleiðis miðað í frumvarpinu. Fjárhæðirnar hafi þó verið framreiknaðar til verðlags 2019. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að skattafrádrátturinn miðist við fjárfestingu á hverju ári og verði 100% af verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa, en þó aldrei hærri en 250.000 kr. hjá einstaklingi og 500.000 kr. hjá hjónum.

Þá kemur einnig fram að eldri lögin gerðu ráð fyrir því að hægt væri að kaupa í óskráðum hlutabréfum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en þá hafi ríkisskattstjóri þurft að staðfesta að hlutabréfin féllu undir þessi skilyrði. Með því að leggja til að eingöngu verði heimilt að fjárfesta í skráðum hlutabréfum sé ferlið við skattaafsláttinn einfaldað, auk þess sem almenningur nýtur lögbundinnar fjárfestaverndar með kaupum á skráðum hlutabréfum. Flutningsmenn telji hins vegar að víkka eigi heimildina út á komandi árum.

Í greinargerð draganna er bent á að við lok árs 2016 hafi verðbréfaeign heimilanna aðeins verið um 8,5% af heildareignum og hafi ekki mælst minni frá því að mælingar hófust. Hlutfallið hafi hæst farið upp í 14% árið 2007, en féll niður í 8,6% við fjármálahrunið og ekki náð sér á strik síðan. Þá er einnig bent á að verðbréfaeignin sé ekki einungis lítil í sögulegu samhengi, heldur einnig í norrænum samanburði, en verðbréfaeign íslenskra heimilda sé t.d. um helmingi minni en verðbréfaeign sænskra heimila. Þá sé bein eignarhlutdeild einstaklinga af markaðsvirði skráðra hlutabréfa nú einungis um 4 til 5%, samanborið við 11 til 17% á árunum 2002 til 2007.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér