Þýska ríkisstjórnin kynnti á mánudaginn frumvarp um fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu fyrirtækja þar í landi, sem er talið að ógni starfsemi fjárfestingarsjóða (e. private equity group) í Þýskalandi. Peer Steinbrück, fjármálaráðherra, sagði að frumvarpið miðaði meðal annars að því að koma í veg fyrir ákveðið skattalegt hagræði sem fyrirtæki hafa hingað til geta nýtt sér. Ef sú breyting hefði einhver "áhrif á tiltekna starfsemi, til dæmis fjárfestingarsjóði, þá yrði það bara að vera þannig. Það væri hvort eð er meiningin með löggjöfinni".

Frumvarpið verður lagt fyrir ríkisstjórn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag og er búist við því að það geti orðið að lögum 1. janúar á næsta ári. Fjárfestingarsjóðir hafa gagnrýnt fyrirhugaða breytingu á skattalöggjöfinni, en þar er gert er ráð fyrir því að minnka þá upphæð sem fyrirtækjum er heimilt að afskrifa sem tap í evrum á móti skattgreiðslum á hverju ári. Samkvæmt núverandi löggjöf geta fyrirtæki afskrifað allt að milljarðs tap hjá sér.
Ef áform þýsku ríkisstjórnarinnar ganga eftir er hætt við því að áhugi erlendra fjárfesta á þýskum fyrirtækjum muni minnka verulega, enda verður búið að fjarlægja mikilvægan hvata til yfirtöku á illa reknum fyrirtækjum.

Fjárfestingarsjóðir hafa einnig fullyrt að með þessari breytingu muni kostnaðurinn af því að ráðast í samruna og yfirtökur á öðrum fyrirtækjum í Þýskalandi hækka, þar sem flestar slíkar yfirtökur eru skuldsettar að stærstum hluta.
Steinbrück vildi þó ekki útiloka það að ríkisstjórnin gæti hugsanlega komið til móts við áhyggjur fjárfestingarsjóða, en um þessar mundir er verið að vinna í sérstakri löggjöf er varðar starfsemi fjárfestingarsjóða.

Samkvæmt óútgefinni skýrslu á vegum fjármálaráðuneytisins er mælt með því við Steinbrück að fjárfestingarsjóðir verði undanþegnir fjármagnstekjuskatti ef sjóðirnir halda fjárfestingum sínum í sprotafyrirtækjum í meira en þrjú ár.
Í frumvarpinu sem Steinbrück kynnti á mánudaginn er einnig gert ráð fyrir því að tekjuskattur á fyrirtæki verði lækkaður úr 38,7%, en það er með því hæsta í heiminum, niður í 29,8%, sem er svipað skatthlutafall og hjá öðrum Evrópuþjóðum.

Þessi skattalækkun hefur verið gagnrýnd af sumum samflokksmönnum hans í Sósíal-Demókrataflokknum, sem telja að lækkunin sýni undanlátssemi við kröfur viðskiptalífsins á sama tíma og aðeins nokkrir mánuðir séu síðan ríkisstjórnin hækkaði virðisaukaskatt um þrjú prósentustig á almenning í landinu.

Það er talið að þýski ríkissjóðurinn verði af skatttekjum upp á 6,47 milljónir evra árið 2008 vegna þessara fyrirhuguðu skattalækkana á fyrirtæki.