Bandarísk yfirvöld hafa breytt skattareglum til að koma í veg fyrir að fyrirtæki skrái höfuðstöðvar sínar erlendis með yfirtöku erlenda félags, en fjöldi fyrirtækja hafa undanfarið nýtt sér þá útgönguleið til að komast hjá háum skattgreiðslum í Bandaríkjunum.

Í dag var tilkynnt um að lyfjafyrirtækið Pfizer hefði hætt við að sameinast Allergan. Samruninn var metinn á 160 milljarða dala, en hann var stærsti samruni sem tilkynnt var um á síðasta ári og stærsti samruni sögunnar í lyfjageiranum. Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá hvata sem lágu að baki samrunanum.

Vildu komast hjá skattgreiðslum

Stór hvati fyrir Pfizer að sameinast Allergan var að komast undan skattgreiðslum í Bandaríkjunum. Samruninn var settur upp sem yfirtaka Allergan á Pfizer, jafnvel þótt Allergan væri smærra fyrirtæki, hvort sem horft væri á tekjur eða eignir. Þar sem Allergan hefði verið yfirtökufyrirtækið þá hefðu höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis verið í Írlandi, þar sem Allergan er skrásett.

Þetta hefði gert sameinuðu fyrirtæki kleift að lækka skattprósentu á erlendum tekjum fyrirtækisins. Tekjur Pfizer utan Bandaríkjanna námu 128 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári og er því um töluverðar fjárhæðir að ræða.

Þær takmarkanir voru þegar til staðar að við yfirtöku erlends fyrirtækis að yfirtekna fyrirtækið sem vildi komast hjá skattgreiðslum í Bandaríkjunum máttu ekki nema meira en 60% af heildareignum sameinaðs fyrirtækis. Samkvæmt yfirtökusamningi Pfizer og Allergan hefði Pfizer átt 56% í sameinuðu fyrirtæki og hefði því uppfyllt þau skilyrði.

Undanskilja eignir síðustu þriggja ára

Bandarísk yfirvöld hafa nú breytt þessari reglu á þann hátt að þegar eignir erlenda aðilans eru metnar þá eru allar eignir sem hafa komið til vegna yfirtöku á bandarískum fyrirtækjum á síðustu þremur árum undanskildar. Allergan hefur á undanförum árum ráðist í nokkrar yfirtökur á bandarískum fyrirtækjum. Meðal annars var samruni Actavis, sem var skrásett í Bandaríkjunum, við Chilcott, sem var skráð í Írlandi, og seinna yfirtakan á Allergan, sem meðal annars framleiðir Botox-lyfið.

Þegar þær yfirtökur hafa verið frádregnar þá hefði Pfizer átt 80% hlut í sameinuðu fyrirtæki, og því yfir ofangreindu 60% hármarki bandarískra skattalaga. Pfizer hafði undanfarin þrjú ár undirbúið slíkan samruna til að geta yfirgefið skattareglur í Bandaríkjunum, en eftir breytinguna eru þeir aftur á byrjunarreit auk þess sem fyrirtækið þarf að greiða Allergan 150 milljónir dala vegna í bætur.

Financial Times, The Wall Street Journal og CNBC hafa öll greint frá því að hætt hafi verið við samrunann í dag.