Skattalagabrot tæma sök gagnvart sjálfþvættisbrotum þegar umrædd brot falla saman og ekkert liggur fyrir um að viðbótarathafnir, tengdar peningaþvætti, hafi átt sér stað. Þetta felst í þremur nýuppkveðnum dómum Landsréttar.

Í einu málinu hafði einstaklingur verið ákærður fyrir skattalagabrot og sjálfsþvætti með því að hafa ekki staðið skil á tæplega 9 milljón króna virðisaukaskatti í sjálfstæðum atvinnurekstri. Í héraði játaði hann sök og var dæmdur til fimmtán mánaða fangelsisvistar en þar af voru tólf mánuðir bundnir skilorði í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða 17,5 milljónir króna í sekt í ríkissjóð.

Í dómi héraðsdóms var talið að brot gegn skattalögum sannað samkvæmt játningunni en ekki var fallist á sakfellingu fyrir sjálfsþvætti þar sem frumbrotið tæmdi sök gagnvart því. Refsiþyngd tók mið af því að þetta var í annað sinn sem maðurinn var dæmdur fyrir skattalagabrot.

Fyrir Landsrétti krafðist ákæruvaldið endurskoðunar dómsins og taldi að niðurstaðan um sakartæmingu stæðist ekki. Í dómi Landsréttar var vikið að dómi Hæstaréttar í máli Júlíusar Vífils Ingvarssonar en í því máli taldist skattalagabrot fyrnt en sjálfþvættisbrot, sem fólst í vörslu ávinningsins og færslu á milli bankareikninga, taldist ófyrnt.

„Í [því máli] reyndi ekki með beinum hætti á sakartæmingu og þótt rétturinn hafi gert ljóst að tilvísun [sjálfþvættisákvæðis hegningarlaganna] til brotasamsteypu mæli gegn því að annað brotanna tæmi sök gegn hinu verður dómurinn ekki skilinn svo að hann útiloki sakartæmingu við aðrar aðstæður en þær sem til úrlausnar voru. Í því sambandi verður að telja ólíku saman að jafna hvort til kemur viðbótarháttsemi af hálfu ákærða eftir frumbrotið, líkt og raunin var í [máli Júlíusar Vífils], eða hvort háttsemin telst felast í frumbrotinu,“ segir í dómi Landsréttar.

Meira þarf að koma til

Samkvæmt ákæru var sjálfþvættisbrotið talist fela í því að hafa „ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning“ af skattalagabrotinu en því var ekki lýst nánar í hverju það fólst. Að mati Landsréttar virtist látið nægja að segja að sjálfþvættisbrot leiddi sjálfkrafa af skattalagabroti.

Þá horfði rétturinn einnig á réttarframkvæmd hingað til og sagði að þrátt fyrir að ákvæði um sjálfsþvætti hefði komið inn í hegningarlögin árið 2010 þá virtist heyra til undantekninga að ákært væri samtímis fyrir skattabrot og sjálfsþvætti. Til að mynda hefði rétturinn ekki leyst úr slíku máli til þessa.

Að mati réttarins var það ekki talið fara á milli mála „að þegar sá sem hefur framið frumbrot aðhefst frekar til að nýta ávinninginn af brotinu, umbreyta honum, flytja, senda, geyma aðstoða við afhendingu hans, leyna honum eða upplýsingum um hann“ feli það í sér sjálfstætt peningaþvættisbrot.

„Þegar [slíkt brot] fellur hins vegar saman við frumbrotið og ekkert liggur fyrir um viðbótarathafnir af hálfu ákærða verður að telja að frumbrotið tæmi sök gagnvart [peningaþvætti],“ segir í dóminum. Þar sem það var raunin í þessu máli, og með hliðsjón af meginreglunni um að túlka vafa sakborningi í hag, var sýknað af ákæru um sjálfsþvætti. Dómur héraðsdóms stóð því óhaggaður.