Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram frumvarp um breytingu á tekjuskattslöggjöfinni þess efnis að einstaklingum yrði gert heimilt að draga frá tekjuskattsstofni útgjöld vegna heimilishjálpar. Með því yrði dregið úr svartri starfsemi auk þess að þeim sem sinna slíkum störfum myndu auka við réttindi sín, jafnt til lífeyrisgreiðslna sem og atvinnuleysisbóta. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Frumvarpið er að norrænni fyrirmynd en sambærilega heimild til skattafrádráttar má finna meðal annars í Svíþjóð og Danmörku þótt nokkur munur sé á útfærslu milli landa. Með breytingunni er stefnt að því að draga úr svartri starfsemi við þrif á heimilum og sameign. Reynslan þar hefur leitt í ljós að tilkynningum um slíka svarta starfsemi fjölgaði eftir að einstaklingum var veitt heimild til að draga útgjöldin frá tekjuskattsstofni.

Hámarksfjárhæð útgjaldanna yrði 1,8 milljónir króna á ári eða sem nemur 150 þúsund mánaðarlegum krónum. Heimildin nær til heimilishjálparstarfa á heimili og sumarbústöðum fólks sem og störf í bílskúr, geymslum, garði og innkeyrslu.

„Til slíkra starfa teljast t.d. hefðbundin heimilisstörf, svo sem þrif og hreingerningar, hefðbundin garðyrkjustörf eða snjómokstur á gangstéttum og í innkeyrslu að heimili. Þegar húsfélag fjöleignarhúss annast greiðslu kostnaðar úr sameiginlegum sjóði vegna slíkra starfa á sameign getur einstaklingur dregið sinn hlut í þeim kostnaði frá tekjuskattsstofni sínum. Þá er ákvæðinu jafnframt ætlað að ná til annars konar umönnunar, svo sem umönnunar heimilismanna vegna veikinda eða fötlunar, umönnunar barna, sem felur m.a. í sér aðstoð við heimavinnu og fleira skólatengt, ásamt því að fylgja börnum í og úr leikskóla, skóla og frístundastarfi,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.