„Fyrstu niðurstöður um áhrif breytinga á neyslusköttum á verðlag matvara gefa skýra vísbendingu um að hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts hafi þegar skilað sér að fullu út í verðlag en í flestum verslunum séu áhrif af afnámi vörugjalda enn mjög takmörkuð." Þetta kemur fram í niðurstöðum verðlagseftirlits ASÍ.

Það er í samræmi við orð Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, sem vakti máls á því fyrr í mánuðinum að áhrif af afnámi vörugjalda tækju lengri tíma að skila sér í verðlag í ljósi þess að vörur sem keyptar hefðu verið með vörugjöldum væru enn á lagerum verslana.

Um seinustu áramót hækkaði neðra þrep virðisaukaskatts úr 7% í 11% samhliða lækkun á efra þrepi úr 25,5% í 24%. Þá voru vörugjöld af fjölda vörutegunda felld niður og sykurskattur afnuminn.

Samkvæmt verðlagskönnun hefur verð hækkað um 5,2% í Víði, sem er mesta hækkunin, en minnst í Kjarval um 0,7%.


Birt á vef ASÍ.