Eftir ítarlega rannsókn komst Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í dag að þeirri niðurstöðu að breytingar sem gerðar voru á íslenskum lögum um virðisaukaskatt, og vörðuðu viðskiptavini gagnavera, hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Skömmu eftir að ESA hóf rannsókn sína var lögum um virðisaukaskatt breytt og þar með felld úr gildi þau ákvæði sem ESA hafði lýst efasemdum um.

Íslenskum stjórnvöldum er með ákvörðun ESA gert að endurheimta þá ólögmætu ríkisaðstoð sem veitt var á gildistíma laga frá 1. maí 2011 til 13. mars 2013.

“Þessi ákvörðun sýnir hve mikilvægt er að EFTA ríkin leiti eftir samþykki ESA áður en aðgerðum sem kunna að fela í sér ríkisaðstoð er hrundið í framkvæmd. ESA mun ávallt fara fram á að ríki endurheimti ólögmæta aðstoð sem ekki hefur verið fyrirfram samþykkt af hálfu stofnunarinnar.” segir Oda Helen Sletnes forseti ESA í tilkynningu.

Í janúar 2013 opnaði ESA formlega rannsókn á ríkisaðstoð í tengslum við umrædda lagabreytingu. Íslensk stjórnvöld tilkynntu ESA ekki um breytingarnar fyrr en eftir að þær höfðu öðlast gildi.