Mál skattakóngsins Þorsteins Hjaltested á Vatnsenda gegn slitastjórn Glitnis heldur áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Deilan snýst um upphæð krafna sem hann lýsti í þrotabú Glitnis. Ekki liggur fyrir um hversu háar fjárhæðir er að ræða. Málið hefur velkst lengi um í dómskerfinu en lögfræðingur Þorsteins telur þetta tíundu fyrirtökuna í því. Á morgun þykir líklegt að slitastjórn Glitnis leggi fram gögn í málinu. Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferð málsins hefst.

Þorsteinn er eigandi Vatnsendajarðarinnar í Kópavogi og komst í álnir þegar byggingaframkvæmdir hófust á Vatnsenda. Hann greiddi rúmar 160 milljónir króna í opinber gjöld árið 2010 og 185 milljónir króna í hittifyrra.

Þetta er langt í frá eina deilumál Þorsteins. Hann deildi lengi við ættingja sína um það hver sé réttmætur eigandi Vatnsendajarðarinnar. Hæstiréttur dæmdi í maí að Þorsteinn er ekki eigandi jarðarinnar að Vatnsenda heldur dánarbú Sigurðar Hjaltested, afa hans. Deilan um jörðina hefur staðið um áratugi.