*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Erlent 7. ágúst 2018 14:24

Skattalækkun BNA hefur áhrif víða

Lækkun fyrirtkæjaskatts Bandaríkjanna er líkleg til að draga úr skattheimtu annarra ríkja samkvæmt rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ritstjórn
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lofaði að lækka fyrirtkæjaskattinn úr 35% í 15% fyrir kosningar, en varð síðar að sætta sig við 21%.
epa

Lækkun fyrirtækjaskatts í Bandaríkjunum gæti minnkað skattheimtu í öðrum löndum um 4,5-13,5% að meðaltali ef þau bregðast við með eigin skattalækkunum. Haldi þau skattkerfum sínum óbreyttum er áætlaður samdráttur í skattheimtu 1,6-5,2%. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Wall Street Journal segir frá.

Undir lok síðasta árs samþykkti Bandaríkjaþing lækkun á fyrirtækjaskatti úr 35% í 21%. Við það drógust skatttekjur bandaríska ríkisins saman, eins og við mátti búast. Samkvæmt rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einskorðast áhrifin þó ekki við landsteinana.

Skattalækkunin mun draga fyrirtæki til Bandaríkjanna frá öðrum löndum, og draga þannig úr skatttekjum þeirra. Sé mark takandi á sögunni munu önnur lönd bregðast við með því að lækka einnig skatta, til að halda í sín fyrirtæki og draga að ný frá öðrum löndum, og þannig dregst meðalskattheimta enn frekar saman.

Alexander Klemm, aðstoðardeildarstjóri skattstefnudeildar AGS, segir áhrifin verða þeim mun meiri eftir því sem lönd eru með nánari efnahagsleg tengsl við Bandaríkin. „Þegar eitt land lækkar skatta, fylgja önnur vanalega í kjölfarið,“.

Mexíkó, Japan og Bretland eru samkvæmt rannsókninni líkleg til að finna hvað mest fyrir lækkuninni. Höfundarnir leggja þó áherslu á að staðbundin áhrif séu háð mikilli óvissu.

Stikkorð: Trump skattamál