Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar gerir ráð fyrir lækkun fasteignaskatta úr 0,21% í 0,20%. Þá mun tómstundastyrkur hækka um 65% á milli ára, úr 30 þúsund krónum í 50 þúsund krónur. Í tilkynningu kemur fram að styrkirnir séu þeir hæstu á landinu.

„Þær áherslur sem eru í fjárhagsáætlun bæjarins koma barnafjölskyldum vel og það er samstaða um að batnandi hagur bæjarsjóðs skuli komi fjölskyldufólki til góða”, segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.

Fjárhagsleg staða er sterk

Í tilkynningu frá bæjarfélaginu kemur fram að engin ný lán hafi verið tekin undanfarin ár og að áætlun geri ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 8 milljónir. Þá sé skuldahlutfall bæjarins 54% og fari lækkandi.

Ráðgert er að byggja nýtt hjúkrunarheimili við Safnatröð og mun bygging þess kosta einn milljarð samkvæmt áætlunum. Þá muni allir námsmenn fá sumarvinnu í bæjarfélaginu ef þörf þykir.