Viðskiptaráð Íslands telur æskilegt að beita skattalegum hvötum til að örva fjárfestingar í nýsköpun hérlendis. Slíkir hvatar eru réttlætanlegir í þeim  tilfellum sem markaðsbrestur er til staðar.

Viðskiptaráð Íslands segir að í slíku tilfelli  megi færa rök fyrir að þeir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum skapi einnig þjóðfélagsleg verðmæti sem þeir njóta ekki ávinningsins af sjálfir. Fjárfestar taka þessi jákvæðu ytri áhrif ekki með í reikninginn við eigin fjárfestingarákvarðanir og setji því minna fé í slík fyrirtæki en er þjóðfélagslega hagkvæmt. Viðskiptaráð segir að skattalegur hvati dragi úr þessari skekkju.

Viðskiptaráð segir þó að gæta þurfi þess að skattalegir hvatar af þessu tagi séu skýrt afmarkaðir. Ofangreindar röksemdir eigi þannig ekki við um smærri fyrirtæki óháð eðli  starfsemi þeirra. Í ljósi þess að framleiðni minni fyrirtækja sé að meðaltali  lægri en stærri fyrirtækja væri óskynsamlegt að skapa skattalega  hvata sem beinast að öllum smærri fyrirtækjum. Í efnahagslegu samhengi  myndi slíkt fyrirkomulag ekki skila þeim þjóðhagslega ávinningi sem lýst er hér að ofan. Þeir skattalegu hvatar sem æskilegt væri að veita eiga því einungis við um nýsköpunarfyrirtæki.