Tekjuskattur á einstaklinga og fyrirtæki í Bretlandi mun lækka frá og með apríl á næsta ári. Frá þessu greindi fjármálaráðherrann Gordon Brown þegar hann kynnti nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem gerir ráð fyrir afgangi á fjárlögum upp á 11 milljarða punda. Þetta var líkast til í síðasta skipti sem Brown kynnir fjárlög ríkisstjórnarinnar, en það er talið nánast öruggt að hann muni taka við af Tony Blair forsætisráðherra, sem hefur þegar boðað að hann muni segja af sér síðar á þessu ári.

Þetta er í fyrsta skipti frá því árið 1999 sem tekjuskattur á einstaklinga er lækkaður, en samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar mun skatthlutfallið lækka úr 22% niður í 20%. Tekjuskattur á fyrirtæki mun einnig lækka um tvö prósentustig, eða úr 30% í 28%. Hins vegar verða skattar á lítil fyrirtæki hækkaðir úr 19% upp í 22%. Sagði Gordon Brown að það væri gert til að stemma stigu við þeirri þróun að sjálfstætt starfandi einstaklingar stofnuðu fyrirtæki í kringum starfsemi sína í því augnamiði að greiða lægri skatt heldur en annað vinnandi fólk.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.