Samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja mun batna töluvert í kjölfar þess að stjórnvöld hafa ákveðið að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 18% í 15%, að því er fram kemur í morgunkorni Glitnis.

Á Norðurlöndunum borga fyrirtæki á bilinu 24-28% af hagnaði sínum í skatt og þegar litið er til Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada og Ástralíu er þetta hlutfall jafnvel ennþá hærra eða allt að 36%. Annað er hinsvegar upp á teningnum í Asíu og Austur - Evrópu þar sem hvert landið á fætur öðru hefur fært sig í áttina að flötum skatti og lágri skattprósentu. Ísland og Írland ásamt ríkjum Austur - Evrópu hafa gengið lengra í að lækka skatta heldur en til að mynda Bretland, Frakkland og Þýskaland.

Auknar tekjur til lengri tíma?

Greiningardeild Glitnir metur það svo að lækkun tekjuskatts niður í 15% mun skila ríkissjóði auknum tekjum til lengri tíma litið. „Athyglisvert verður að sjá hvað matsfyrirtækin sem að meta lánshæfi ríkissjóðs segja um þessa breytingu en eins og kunnugt er hafa þau lagt mikla áherslu á aukið aðhald í ríkisfjármálum en áætlað er að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti um helgina kosti ríkissjóð 20 milljarða króna á næstu þremur árum og munu þar af leiðandi minnka aðhaldið í ríkisfjármálum umtalsvert á því tímabili og ganga á þann tekjuafgang sem áætlað var að yrði á rekstri ríkissjóðs. Hins vegar koma þessar breytingar á tíma þegar fyrirséður er hægari gangur í hagkerfinu, kaupmáttur heimilanna muni vaxa hægar en undanfarin ár og starfsskilyrði fyrirtækja gætu þrengst.

Aðgerðir stjórnvalda eru til þess fallnar að milda þessi áhrif og unnið gegn samdrætti innlendrar eftirspurnar til skamms tíma,” segir Auðbjörg Ólafsdóttir, sérfræðingur á greiningardeild Glitnis.