Í nýjum kjarasamningum er gert ráð fyrir lækkun fyrirtækjaskatts úr 18% í 15%.

Ljóst er að áhrif lækkunarinnar munu hafa mismikil áhrif á fyrirtæki hérlendis, að því er kemur fram í Hálf fimm-fréttum Greiningardeildar Kaupþings.

„Þegar kemur að áætlunum um skattfærslu fyrirtækja verður að segjast að fáir liðir eru jafn illfyrirsjáanlegir í rekstrarreikningi félaga á markaði", segir Greiningardeildin.

Þau félög sem eru skráð í Kauphöllina og eru að mestu með starfsemi sína innanlands munu hagnast mest á skattalækkuninni, svo sem Teymi, Icelandair og 365.

Viðskiptabankarnir eru með nokkuð stórt hlutfall starfsemi sinnar hérlendis, og gerir Greiningadeildin ráð fyrir að virkt skatthlutfall hjá þeim muni lækka um um það bil 1,5%. Stóru fjárfestingafélögin munu þó ekki finna jafnmikið fyrir lækkuninni.

„Áhrifin gætu þó verið nokkuð misjöfn á milli bankanna, en þeir eru allir með töluverðan hluta af starfsemi sinni á Íslandi og óljóst með hvaða hætti skattalækkunin nýtist hverjum og einum. Við gerum ekki ráð fyrir því að þessar skattalækkanir muni hafa veruleg áhrif á rekstrarreikninga Exista eða FL Group þar sem tekjuskattshlutfall félaganna er lágt. Áhrifin gætu helst komið fram hjá dótturfélögum sem starfa í tryggingatengdum rekstri hérlendis," segir Greiningardeildin.