Það er óhætt að segja að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands hafi slegið marga leiðtoga 20 helstu iðnríkja heims (G20) út af laginu þegar hann um síðustu helgi kynnti tillögur sínar að alþjóðlegri skattheimtu fjármálafyrirtækja.

Fundur leiðtoga G20 ríkjanna var haldinn í Skotlandi um síðustu helgi og er sá síðasti í fundarröð leiðtoganna en þeir munu aftur hittast á reglubundnum fundi að ári.

Að undanskildu því sem fjallað var um hér að ofan virðist hafa farið lítið fyrir fundinum enda aðeins um 2 mánuðir síðan síðasti fundur var haldinn.

Að sögn breska blaðsins Telegraph ákvað Brown að ávarpa samkomuna á síðustu stundu. Skatturinn sem um ræðir er svokallaður færsluskattur (á ensku er hann þekktur sem Tobin-skattur) en um er að ræða sérstakan skatt sem lagður verður á allar gjaldeyrisfærslur og arðgreiðslur fjármálafyrirtækja. Enn hefur þó ekki verið útlistað hvernig skattheimtunni yrði framfylgt.

Hins vegar hefur Austrian Institute for Economic Research reiknað út að með slíkri skattheimtu myndi alþjóðahagkerfið hala inn allt að 690 milljörðum Bandaríkjadala árlega en um er að ræða 0,05% skatt á fyrrgreindar færslur og hugsanlega aðrar færslur af svipuðum toga.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .