*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 19. apríl 2019 17:01

Skattamáli Stoða vísað frá dómi

Deilt var um réttmæti 400 milljóna dráttarvaxta vegna virðisaukaskattskila Stoða. Málið á sér langa sögu.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Jónasson

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði máli Stoða hf. gegn ríkinu sjálfkrafa frá dómi síðastliðinn miðvikudag og dæmdi félagið til að greiða ríkinu 800 þúsund krónur í málskostnað. Ástæðan var sú að hljóð og mynd fóru ekki saman milli kröfu og málsástæðna. 

Deila aðila á sér langa sögu en hún lýtur að upphafstíma dráttarvaxta af virðisaukaskattivegna tekjuáranna 2006 og 2007. Þau ár keyptu Stoðir, sem þá hét FL Group, sérfræðiþjónustu af dótturfélögum sínum í Danmörku og Bretlandi. Taldi félagið að ekki bæri að standa skil á virðisaukaskattskýrslu vegna þessa enda vafi um hvort þjónustan væri skattskyld auk þess að það væri ekki á virðisaukaskattskrá.

Ríkisskattstjóri var á öðru máli og í júní 2011 tók hann ákvörðun um stofn skattskyldrar veltu vegna þessa. Álagður virðisaukaskattur vegna áranna nam samanlag tæpum 500 milljónum auk þess að Stoðum var gert að greiða tíu prósent álag á upphæðina. 

Úrskurðinum var skotið til yfirskattanefndar (YSKN) sem lækkaði álagðan skatt um 100 milljónir tæpar. Kröfu um niðurfellingu álags var hafnað. Þeirri niðurstöðu var skotið til héraðsdóms. Niðurstaða hans lá fyrir árið 2017 þar sem ekki var fallist á aðalkröfu Stoða, um ógildingu úrskurðar RSK eins og YSKN hafði breytt honum, en fallist var á varakröfu um niðurfellingu álags. Í öllum nefndum úrskurðum og dómum var aldrei tekin afstaða til upphafsdags dráttarvaxta en þeir námu um 400 milljónum króna.

Stoðir byggðu á því að skattkrafa hafi ekki stofnast fyrr en RSK tók ákvörðun í málinu árið 2011 og því hafi dráttarvextir ekki byrjað að reiknast fyrr en þá. Ríkið taldi á móti að útreikningur dráttarvaxta hafi átt að byrja við tímamark uppgjörstímabilanna, það er áranna 2006 og 2007.

Í úrskurði héraðsdóms er bent á að krafa Stoða hafi verið sú að „viðurkennt yrði með dómi að [ríkinu] hafi verið óheimilt að reikna dráttarvexti á endurákvarðanir virðisaukaskatt vegna áranna 2006 og 2007“. Hins vegar hafi ekki verið hægt að skila málatilbúnað hans á annan veg en að hann telji að krafa til greiðslu skattsins hafi stofnast í júní 2011 og fyrst hafi mátt leggja dráttarvexti á kröfuna mánuði síðar.

Slíkt ósamræmi þótti vera á milli kröfu og málsástæðna að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá dómi. Ekki liggur fyrir hvort úrskurðurinn verður kærður til Landsréttar.

Stikkorð: skattar Stoðir dómsmál