*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Frjáls verslun 9. apríl 2020 17:03

Skattaparadísin stækkar út í sjó

Hvergi á byggðu bóli er íbúðaverð hærra en í furstadæminu Mónakó þar sem nú standa yfir 325 milljarða króna framkvæmdir.

Höskuldur Marselíusarson
Mónakó stækkar um 60 þúsund fermetra með nýju framkvæmdunum en þó að landið sé eitt það þéttbýlasta í heimi er samt pláss fyrir Formúlu 1 kappaksturinn sem haldinn er þar árlega.

Hvað gerist ef ríki tekur sig til og afnemur tekjuskatt algerlega? Ef eitthvað er að marka sögu smáríkisins Mónakó, næstminnsta ríkis heims, sem gerði það árið 1869, þá bæði dregurðu að, og jafnvel skapar milljarðamæringa í stórum stíl. Nú getur um þriðjungur íbúa furstadæmisins talið auð sinn í milljónum Bandaríkjadala svo algengur mælikvarði um ríkidæmi sé nýttur.

Þar af geta um 223 af íbúum landsins talist í hópi hinna ofurríku sem eiga þá yfir 30 milljónir Bandaríkjadala, eða sem samsvarar um og yfir 4 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Frank Knight frá síðasta ári.

Það hjálpar þó eflaust til að ríkið, sem er heppilega staðsett á góðviðrisparadís frönsku revíunnar eins og Miðjarðarhafsstrandlengja Frakklands er kölluð, hefur lengi haft ýmiss konar sérsamninga við fyrst franska ríkið og í dag við ESB.

Til að mynda notar það evruna, er með fótboltalið sem spilar í frönsku úrvalsdeildinni, íbúar njóta ferðafrelsis og aðgangs að hlutum innri markaðar ESB, og svo framvegis. Auðvitað kemur þar einnig til sú gríðarlega efnahagslega uppbygging furstadæmisins sem komið hefur til síðan Grimaldi-fjölskyldan, sem stýrt hefur landinu nánast sleitulaust frá 1297, setti á fót fyrsta spilavíti landsins undir lok 19. aldar. 

  • Monte Carlo spilavítið var stofnað af Grimaldi furstafjölskyldunni í Mónakó árið 1863, en átta árum síðar var hagnaðurinn af því orðinn svo mikill að tekjuskattur var afnuminn í landinu.

Meira en tveir þriðju íbúa fæddir utan ríkisins

Því ætti sú þróun ekki að koma á óvart að um 70% nærri 40 þúsund íbúa landsins eru fæddir utan þess um 2,2 ferkílómetra svæðis sem ríkið nær yfir. Það er því álíka stórt og Central Park í New York borg, eða til að taka nærtækara dæmi, um það bil jafnstórt og flugvallarsvæðið, ásamt Öskjuhlíð, í Reykjavík. Samt sem áður tekst landinu að koma fyrir Formúlu 1 kappaksturskeppninni á götum borgarinnar í hverjum maímánuði og hefur gert það síðan 1929.

Eins og gefur að skilja þýðir þetta allt að þröngt er um manninn í landinu, sérstaklega þegar haft er í huga að árlega sækja um 400 þúsund ferðamenn það heim. Auk þess koma um 40 þúsund manns til viðbótar við íbúana þangað til vinnu á hverjum degi frá bæði Frakklandi og Ítalíu, sem er í rétt um 15 kílómetra fjarlægð frá landamærum ríkisins, sem er umlukið Frakklandi á allar hliðar.

Það er í allar áttir nema út í sjó, sem landið hefur einmitt nýtt sér allt frá því á 19. öld til að bæta úr þrengslunum og auka við land sitt með uppfyllingum, sem nú nema um fimmtungi af flatarmáli landsins. Og nú er eitt slíkt 2,4 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 325 milljörðum íslenskra króna, verkefni í gangi sem á að klárast árið 2025. Á þeim um 60 þúsund fermetrum sem þá bætast við á að vera pláss fyrir um þúsund nýja íbúa í um 120 nýjum lúxusíbúðum. 

  • Hér sést hvar verið er að byggja nýja Portier Cove hverfið en á þeim 60 þúsund ferkílómetrum sem þar bætist við byggingasvæði Mónakó furstadæmisins verða um 120 nýjar lúxusíbúðir sem geta hýst um þúsund nýja íbúa.

Sandur fluttur frá Sikiley

Framkvæmdirnar eru einar þær stærstu í Evrópu og fela í sér að yfir fimm milljónir tonna af sandi verða fluttar til landsins frá Sikiley, auk 18 gríðarstórra steinsteyptra sökkla sem franska verktakafyrirtækið Bouygues hefur unnið að því að koma fyrir síðan verkefnið hófst fyrir um þremur árum. Auk nýju heimilanna verður á nýja landsvæðinu garður með Miðjarðarhafsplöntulífi, lítil bryggja og ný strandgata. 

Verkefnið á jafnframt að vera vistvænt og var til að mynda lagður töluverður kostnaður í að flytja sjávargróður frá strandlengjunni sem fer undir á náttúruverndarsvæði í grenndinni auk þess sem byggð verða upp sérstök svæði neðansjávar fyrir aukinn sjávargróður á móti því sem fer undir nýja landið. Jafnframt er ætlunin að um 40% af orkuþörf hverfisins verði svarað með sólarorku og sérstakar pumpur munu nota sjó til að stýra hitastiginu í byggingunum, sem allar verða með stórum svölum og misháar.

Nýja hverfið, Portier Cove, er ekki langt frá hinu sögufræga Monte Carlo spilavíti sem til að mynda hefur oft komið til sögunnar í kvikmyndunum um njósnara hennar hátignar, James Bond. Tekjurnar af sölu þessara nýju íbúða eru áætlaðar um 3,5 milljarðar evra, eða sem nemur 474 milljörðum íslenskra króna, enda íbúðamarkaður landsins einn sá verðmætasti í heimi. 

Þannig fást einungis 16 fermetrar í íbúðarhúsnæði á besta stað fyrir eina milljón Bandaríkjadali, eða sem nemur um 135,5 milljónum íslenskra króna, í Mónakó, og er það dýrasta fasteignaverð í heimi samkvæmt áðurnefndri skýrslu Frank Knight. Næst á eftir kemur Hong Kong þar sem 22 fermetrar fást fyrir sama verð og þar á eftir koma bæði New York og London þar sem fæst 31 fermetri fyrir þetta verð.

Gangi þetta verð eftir fyrir nýja hverfið, sem samanstendur af frá um 400 fermetra íbúðum í 1.000 fermetra einbýlishús, mun söluandvirðið hlaupa á frá 25 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 3,4 milljörðum íslenskra króna fyrir íbúðirnar, upp í 63 milljónir dala, eða 8,5 milljarða íslenskra króna fyrir einbýlishúsin. Allt verkefnið er fjármagnað af einkaaðilum, sem jafnframt taka áhættuna af sölu íbúðanna, þó að stjórnvöld í furstadæminu hafi yfirumsjón með því. Því má vænta að milljarða-mæringunum og hinum ofurríku muni fjölga enn um sinn í litla, en stækkandi, furstadæminu næstu árin.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma í verslanir. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst askrift@vb.is.