Meðalútsvarshlutfall sveitarfélaga verður 14,44% á nýju ári, 0,03 prósentustigum hærra en á síðasta ári, sem stafar fyrst og fremst af hækkun útsvars í Reykjavík.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins þar sem birtar eru upplýsingar um skattheimtu á næsta ári. Eins og fram hefur komið á vef Viðskiptablaðsins munu 67 af 75 sveitarfélögum leggja á hámarksútsvar en tvö sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar á næsta ári.

Þessi hækkun á meðalútsvarshlutfalli veldur eðli málsins samkvæmt hækkun á staðgreiðsluhlutfalli tekjuskatts. Á næsta ári, árið 2012, verður staðgreiðsluhlutfall tekjuskatts og útsvars í þremur þrepum; 37,34%, 40,24% og 46,24%. Öll þrepin hækka um 0,03 prósentustig á milli ára.

Eins og greint var frá í úttekt Viðskiptablaðsins fyrir jól verðu mánaðarleg tekjumiðunarmörk þrepa þannig að af mánaðarlegum tekjum yfir 230.000 kr. er greitt í öðru þrepi og af tekjum yfir 704.367 kr. er greitt í þriðja þrepi. Þannig er að af fyrstu 2.760.000 kr. árstekjum einstaklings (þ.e. 230.000 kr. á mánuði) er reiknaður 22,9% skattur auk meðalútsvars. Af næstu 5.692.400 kr. (474.367 kr. á mánuði) er reiknaður 25,8% skattur og síðan í þriðja þrepi 31,8% skattur af árstekjum umfram 8.452.400 kr. (704.367 kr. á mánuði) hjá einstaklingi.

Persónuafsláttur hvers einstaklings hækkar í samræmi við vísitölu neysluverðs á síðustu tólf mánuðum í desember, eða um 5,3%. Þannig verður persónuafslátturinn 46.532 krónur á mánuði eða 558.385 krónur fyrir árið í heild.

Skattleysismörk, sem eru 123.417 kr. á mánuði á árinu 2011 verða 129.810 kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2012 (að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds). Hækkunin er 5,2%.

Þá kom einnig fram í úttekt Viðskiptablaðsins fyrir jól að ákveðið hefur verið að framlengja hinn svokallaða auðlegðarskatt út árið 2013. Frá því að skatturinn var fyrst lagður á af núverandi ríkisstjórn hefur hann verið sagður tímabundinn. Hann hefur nú verið innheimtur af efnameiri einstaklingum síðustu tvö ár og eins og staðan er í dag er útlit fyrir tvö ár til viðbótar. Auðlegðarskattstofn einstaklinga reiknast sem hreinar eignir, þ.e. eignir umfram skuldir, og verður 75 milljónir á næsta ári hjá einstaklingi. Eignir á bilinu 75 milljónir til 150 milljónir verða skattlagðar um 1,5% og um 2% umfram 150 milljónir. Hjá hjónum er auðlegðarskattstofninn 100 milljónir og 200 milljónir fyrir efra skattþrepið.

© vb.is (vb.is)