Tekjuskattur fyrirtækja verður lækkaður úr 18% í 15% frá og með tekjuárinu 2008 sem kemur til framkvæmda álagningarárið 2009. Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga.

Formenn stjórnarflokkanna eru á þessari stundu að kynna yfirlýsinguna í stjórnarráðinu.

Í yfirlýsingunni er sömuleiðis gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um sjö þúsund krónur á næstu þremur árum, umfram almenna verðuppfærslu. „Árið 2009 hækkar hann um 2.000 krónur, árið 2010 um 2.000 krónur og árið 2011 um 3.000 krónur," segir í yfirlýsingunni.

Þar segir enn fremur að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir frekari aðgerðum til lækkunar vöruverðs, einkum á matvælum. „Sérstaklega verða skoðaðar frekari lækkanir á tollum og vörugjöldum."

Formenn stjórnarflokkanna sögðu þá samninga góða sem nú væri verið að ganga frá á vinnumarkaðnum. „Við erum hér að koma til móts við hin ýmsu sjónarmið," sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, enn fremur um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Geir sagði að ríkið væri að setja allt að 20 milljarða á næstu þremur árum í þær aðgerðir sem kunngerðar eru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Skerðingarmörk barnabóta hækka

Ríkisstjórnin mun aukinheldur leggja til hækkun skerðingarmarka barnabóta, að því er fram kemur í yfirlýsingunni, úr 100 þúsund krónum á mánuði fyrir einstaklinga í 120 þúsund krónur árið 2008 og í 150 þúsund krónur árið 2009. "Sambærilegar fjárhæðir fyrir hjón hækka úr 200 þúsund krónum í 240 þúsund krónur árið 2008 og 300 þúsund árið 2009. Tekjuskerðingarhlutföll vegna annars og þriðja barns verði jafnframt lækkuð um 1% árið 2008."

Í yfirlýsingunni eru enn fremur kynntar aðgerðir í húsnæðismálum, atvinnuleysismálum og menntamálum.