Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, segir að útsvar á Seltjarnarnesi hafi verið hækkað um 7,5% á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir það hafi Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri lofað að hækka ekki skatta. Skafti skrifar grein um þetta í Morgunblaðið í dag, en prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fer fram þann 9. nóvember næstkomandi.

„Á Seltjarnarnesi er traustur meirihluti Sjálfstæðisflokksins, sem örugglega ætlaðist til að kosningaloforð hans yrðu tekin alvarlega,“ segir Skafti og rifjar upp að núverandi bæjarstjóri, Ásgerður Halldórsdóttir, hafi fyrir prófkjör 2009 lofað að útsvar og fasteignagjöld yrðu óbreytt, þegar fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 yrði kynnt.

Að sögn Skafta sagði Ásgerður orðrétt „Einu vil ég þó lofa strax. Ég mun leggja til við bæjarstjórn að útsvar og fasteignagjöld verði óbreytt, þegar fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 verður kynnt. Skattpíning vinstriflokkanna í landinu verður nægur kross fyrir okkur öll að bera þótt við sjálfstæðismenn á Nesinu bætum þar ekki við, heldur stöndum fast á okkar gömlu stefnu sem fyrr. Ég mun því sem forystumaður ekki hækka skatta eða fara í nýframkvæmdir eins og nú háttar.“

Skafti segir í greininni að rúmu ári síðar hafi útsvarið á Seltjarnarnesi hækkað um 7,5%. Fyrir heimili með tvær fyrirvinnur og heildarlaun samtals upp á 900 þúsund á mánuði hafi þessi hækkun þýtt aukin útgjöld upp á rétt um 95 þúsund krónur á ári.