Flest málin sem til rannsóknar eru hjá skattrannsóknarstjóra á fjármagnsflutningum Íslendinga og félaga þeirra í skattaskjól tengjast dótturfélögum íslensku bankanna í Lúxemborg. Þetta staðfestir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri í samtali við vb.is. Hún segir málin stranda á bankaleynd. „Við höfum ekki fengið upplýsingar þaðan,“ segir hún.

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri ríkisins.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri ríkisins.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Bryndís bendir á að barist hafi verið gegn bankaleynd í skattaskjólum víða um heim síðustu misserin, ekki síst hafi Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) staðið fyrir því að svipta hulunni af skattaskjólum. Baráttan gengur út á breytingu á regluverki til að auka gagnsæi og gerð samninga á milli ríkja um miðlun upplýsinga. Hún segir að samningarnir séu margir ný til komnir, sem dæmi hafi slíkur samningur á milli Íslands og Lúxemborgar tekið gildi í byrjun síðasta árs. Samningurinn er ekki afturvirkur og því nýtist hann á komandi árum. Samningurinn kveður á um að stjórnvöld, bankar og fjármálafyrirtæki í Lúxemborg geta ekki borið fyrir sig bankaleynd sem rökum fyrir því að veita ekki upplýsingar um félög og fjármagnseigendur.

„Þótt við erum hér með mál sem ekki er rétt með farið í skattaskjólum þá eru fjölmörg dæmi um að það sé rétt gert,“ segir Bryndís. „Hins vegar er ákveðin tilhneiging til þess að fjármagn leiti þangað vegna leyndar og takmarkaðs aðgengis á upplýsingum. Skattasjól er vettvangur fyrir skattsvik.“

Fundað um skattaskjól

Bryndís verður með erindi um skattaskjól og tilgang þeirra á fundi Málfundafélags Lögréttu klukkan 16 í húsnæði Háskólans í Reykjavík í dag. Á fundinum verður m.a. leitast við að svara því hvort hægt sé að stofna félag í skattaskjóli án þess að brjóta lög og einnig hver séu mörk eðlilegs og óeðlilegs rekstrar félags í skattaskjóli.´

Á meðal annarra framsögumanna eru Friðgeir Sigurðsson, yfirmaður lögfræðisviðs PWC, Auður Helgadóttir hdl., starfsmaður á lögfræðisviði Deloitte, Sigurður Jensson, hópstjóri á eftirlitssviði RSK og Guðrún Jenný Jónsdóttir sviðstjóri alþjóðasamskipta frá RSK. Fundarstjóri verður Páll Jóhannesson hdl. hjá Nordik Lögfræðiþjónustu og stundakennari í skattarétti við Háskólann í Reykjavík.