Svokallað skattaspor laxeldisfyrirtækisins Arnarlax nam 616 milljónum króna á síðasta ári, að því er fram kemur í samantekt endurskoðunarfyrirtækisins PwC.

Skattasporið er tæki endurskoðunarfyrirtækisins til að gera með einföldum hætti grein fyrir öllum sköttum og gjöldum til opinberra aðila í einni samantekt; ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða, að því er segir í umfjöllun Morgunblaðsins um málið.

Skiptist skattaspor Arnarlax þannig að skattar þeirra um 118 starfsmanna fyrirtækisins sem störfuðu hjá fyrirtækinu að meðaltali á síðasta ári nam 377 milljónum króna, framlög í lífeyrissjóði nam 124 milljónum, aðflutningsgjöld voru 18 milljónir, gjald í umhverfissjóð nam 30 milljónum, afla- og hafnargjöld námu 48 milljónum og önnur gjöld 19 milljónum.

Stoltur af skattasporinu

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax kveðst stoltur af skattasporinu. „Við erum afar ánægð með þessa samantekt sem PwC á Íslandi hefur gert fyri rokkur,“ segir Kjartan.

„Þetta eru umtalsverð áhrif og ástæaðan fyrir því að við setjum þetta svona fram, er til að styðja við þessa umræðu um fiskeldið, þannig að menn sjái allar hliðar á þessu, og þetta er klárlega ein hliðin.

Smátt og smátt fáum við fleiri staðreyndir málsins upp á borðið. Til dæmis má merkja jákvæða breytingu í tölum Hagstofunnar um búsetuþróun á sunnanverðum Vestfjörðum á síðustu áratugum.

Skattasporið sýnir að framlag okkar er verulegt og á sinn þátt í þessu og í það heila erum við dálítið stolt af þessu.“ Fyrirtækið framleiddi á síðasta ári 6.000 tonn af laxi en það stefnir á tvöfölldun þess magns á þessu ári.