Maður sem ákærður hefur verið fyrir að hafa vantalið fjármagnstekjur sínar um tæpar 650 milljónir króna og því ekki staðið skil á um 65 milljónum krónum í fjármagnstekjuskatt gæti þurft að greiða allt frá tvöfaldri og allt að tífaldri skattfjárhæðinni.

Samkvæmt því gæti sektin orðið mest 650 milljónir króna. Algengt er þó að sektargreiðslan nemi tvöfaldri fjárhæðinni. Í þessu tilviki myndi það þýða 130 milljónum króna.

Samkvæmt ákæru í málinu sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag vantaldi maðurinn tekjur sínar af framvirkum viðskiptum, gengishagnað og hagnað af sölu hlutabréfa upp á 648,9 milljónir króna og stungið tæplega 65 milljónum króna undan skatti. Þá vanrækti hann að skila skattframtölum gjaldárin 2007 til 2009 vegna tekjuáranna á undan.

Nokkrir dómar hafa fallið upp á síðkastið þar sem hinir ákærðu töldu ekki fram fjármagnstekjur.

Bjarni Ármannsson , fyrrverandi bankastjóri Glitnis, hlaut sem dæmi í júní í sumar skilorðsbundinn dóm í hálft ár og til greiðslur á rúmlega 35 milljóna króna sektar vegna skattalagabrota. Það jafngildir einni og hálfri þeirri upphæð sem hann var ákærður fyrir að hafa stungið undan skatti.

Um svipað leyti hlaut Eiríkur Sigurðsson , sem síðustu misserin hefur verið kenndur við Víði skilorðsbundinn dóm til 18 mánaða og til grieðslu rúmlega 163 millljóna króna sektar. Sektargreiðsla Eiríks jafngilti tvöföldu skattaundanskoti hans.

Þá var Ragnar Þórisson , stofnandi vogunarsjóðsins Boreas Capital í vor dæmdur til að greiða 24 milljónir króna í sektir vegna 12 milljóna króna skattaundanskots. Hann hlaut jafnframt þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm.