Stjórn Félags atvinnurekenda hvetur sveitarfélög eindregið til að endurskoða álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, til mótvægis við gífurlegar hækkanir á fasteignamati. Segir FA að óbreyttu muni hækkanirnar leiða til þess að skattbyrði fyrirtækja þyngist um milljarða króna. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar FA sem samþykkt var á fundi í dag.

Í síðustu viku var tilkynnt um miklar hækkanir á fasteignamati fyrir árið 2018. Bendir FA á það að fasteignamat á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikill meirihluti fyrirtækja er staðsettur hafi hækkað um 10,6%. Á síðustu tveimur árum hefur matið hækkað um 20,7% og frá árinu 2013 um 55%.

Í frétt á heimasíðu FA segir félagið að fasteignagjald sé í eðli sínu óheppileg skattheimta á fyrirtæki sem leggst á eigið fé þeirra óháð afkomu. Hækkanir á fasteignaverði og þar með fasteignamati hafi ekkert um afkomu flestra fyrirtækja að segja heldur stuðli einungis að hærri skattbyrði þeirra.

FA hefur áður skorað á sveitarfélögin að taka mið af þessu og lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Þrátt fyrir þessar áskoranir hafi sveitarfélögin haldið álagningarprósentu óbreyttri undanfarin tvö ár. Bendir FA á að sem dæmi hafi fasteignagjöld sem Reykjavíkurborg innheimtir af fyrirtækjum hækkað um rúman milljarð milli áranna 2015 og 2016.