Skatttekjur ríkissjóðs jukust mikið á seinasta ári samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2014 , eða um samtals 59 milljarða króna frá árinu 2013. Á sama tíma jukust útgjöld ríkissjóðs um 17 milljarða, eða um 3% af heildarútgjöldum. Mestu munaði um 8 milljarða króna kostnaðarauka vegna hærri launakostnaðar á milli ára. Afkoma ríkissjóðs var jákvæð um 46 milljarða árið 2014.

Tryggingagjald hækkaði

Í tilkynningu sem Viðskiptaráð Íslands hefur sent frá sér kemur fram að skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja hafi þyngst og „allir helstu skattstofnar hækkað," að því er segir í tilkynningunni. Í ríkisreikningi kemur fram „að skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu hafi vaxið úr 27,1% í 30,2% á milli ára" og að hlutfallslega hafi hún verið „mest í tilfelli fjármagnstekjuskatts einstaklinga (39% aukning) og fyrirtækjaskatts (37% aukning). Þá vekur athygli að tryggingagjöld hafi hækkað um 5% á milli ára þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað úr 5,4% niður í 5,0% á sama tímabili samkvæmt Hagstofu Íslands."

Leggja til aukinn einkarekstur

Í tilkynningu Viðskiptaráðs kemur fram að óráðlegt sé að auka útgjöld ríkissjóðs frekar en hefur verið gert. Skynsamlegra væri að mati ráðsins að auka einkarekstur á Íslandi. „Það mun seint teljast sjálfbær þróun að auka ríkisútgjöld á sama tíma og opinberar skuldir eru tvisvar til þrisvar sinnum hærri en hjá öðrum Norðurlöndum og hækkandi meðalaldur reynist Íslendingum sífellt þyngri baggi. Að mati Viðskiptaráðs eru fjölmörg verkefni á höndum hins opinbera í dag sem einkaaðilar eru betur til þess fallnir að leysa af hendi."

Ríkið hvetji ekki til þenslu

Viðskiptaráð telur mikilvægt að hið opinbera hvetji ekki til þenslu með frekari útgjaldaauka. Þess í stað sé mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir með því að forgangsraða verkefnum og greiða niður skuldir. „Þannig verður best dregið úr hagsveiflum og stutt við efnahagslegan stöðugleika á komandi árum," segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.