Skattfleygur er sá munur sem er á heildarkostnaði vinnuveitanda við að hafa starfsmann í vinnu annars vegar og nettólaunum viðkomandi starfsmanns hinsvegar. Skattfleygur mælir hversu mikill munur er á þessu tvennu vegna skatta, lífeyrisgreiðslna, tryggingagjalds og annarra launatengdra gjalda að frádregnum ýmsum bótum, á borð við barnabætur.

Hærri skattfleygur þýðir að minna situr eftir í vasa launþega að teknu tilliti til þessara þátta. Neikvæður skattfleygur myndi þannig tákna að nettólaun starfsmanns væru hærri en brúttólaun, líklegast vegna bótagreiðslna.

Skattfleygur hefur aukist stöðugt frá aldamótum á Íslandi. Hann er nú 33,4% hér á landi en hann var 28,8% um aldamót á einstæðing með meðallaun. Þetta kemur fram í skýrslu OECD um skattfleyg, Taxing Wages. Engu að síður er skattfleygurinn lægri en meðaltal OECD, sem er 35,85% hjá sama þjóðfélagshópi. Þróunin í OECD frá aldamótum hefur aftur á móti verið niður á við en skattfleygur hefur lækkað úr 36,75% um aldamót um tæp 1%.

Aukist meira hjá einstæðum foreldrum

Athygli vekur að skattfleygurinn hefur þróast með misjöfnum hætti eftir þjóðfélagshópum. Hann hefur aukist mest á meðal einstæðra foreldra, en samkvæmt mælingum OECD var skattfleygur einstæðs foreldris með tvö börn og 2/3 af meðaltekjum 5,7% árið 2000 en var kominn upp í 16,5% í fyrra. Eftir sem áður er skattfleygur á þennan þjóðfélagshóp lægstur. Meðaltalsskattfleygur á þennan þjóðfélagshóp er 17,2% innan OECD.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .