Samkvæmt hádegisfréttum Ríkisútvarpsins eru fulltrúar fjármálaráðuneytisins samþykkir því að hækka iðgjald ríkissjóðs til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) um eitt prósentustig. Nú er framlag ríkisins til LSR 11,5% af launum ríkisstarfsmanna sem greiða í sjóðinn. Hækka þarf mótframlag ríkisins til að bæta tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðsins. Það mun kosta skattgreiðendur milljarða króna árlega miðað við óbreytt laun samkvæmt fréttum Rúv.

Þetta bætir þó ekki nema að litlu leyti þann tryggingafræðilega halla sem er á sjóðnum og kemur hallanum bara undir lögbundið lágmark sem hann má vera.

Í desember síðastliðinn benti ríkisendurskoðun á í skýrslu til fjárlaganefndar að samkvæmt tryggingafræðilegu mati þyrfti að hækka heildariðgjald til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins úr 15,5% í 19,5% til þess að ná nauðsynlegu jafnvægi. Hækkun iðgjaldsins fæli í sér nokkurra milljarða aukningu á árlegum útgjöldum ríkissjóðs.