Íslendingar þurfa að huga að mögulegum umhverfisáhrifum sæstrengs sem tengir raforkumarkaðinn við Evrópu, segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra í samtali við Bloomberg fréttastofuna.

Hún segir ekki koma til greina að ráðast í svo áhættusama framkvæmd nema tryggt sé að skattgreiðendur muni aldrei bera nokkurn kostnað. Nýleg skýrsla um lagningu sæstrengs getur ekki orðið grundvöllur endanlegrar ákvarðanatöku um verkefnið, segir Ragnheiður.

Í fréttinni segir að í skýrslunni komi fram mikil óvissa um hugsanlega arðsemi framkvæmdarinnar. Í henni segir að árlegar tekjur af raforkuútflutningi í gegnum sæstreng geti verið á bilinu 4-76 milljarðar króna. Ragnheiður Elín segir að svo stór skekkjumörk geti ekki verið grundvöllur ákvörðunar, en að skýrslan sé mikilvægt fyrsta skref í upplýsingaöflun.