Skattgreiðendur munu tapa ríflega 35 milljörðum króna á láninu sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi þann 6. október 2008. Þá fékk Kaupþing 500 milljónir evra að láni frá bankanum, en nú hefur endanlega verið staðfest að hann mun ekki fá aftur meira en tvo milljarða króna til viðbótar þeim 40 milljörðum króna sem þegar hafa skilað sér. Kjarninn greinir frá málinu.

Lánið var veitt með veði í danska bankanum FIH Erhversbank sem hefur nú verið lagður niður sem viðskipta- og fjárfestingabanki og stendur fyrirtækjaráðgjöf ein eftir af upphaflegri starfsemi. Stjórnendur Seðlabankans og Kaupþings fullyrtu þegar lánið var veitt að peningarnir myndu ekki tapast. FIH væri traustur banki sem myndi standa undir láninu.