Borgarráð hefur samþykkt að veita eigendalán til Austurhafnar TR vegna tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu til 12 mánaða, en að þeim tíma liðnum á endurfjármögnun hússins að liggja fyrir.

Þetta kemur fram í bókun á fundi borgarráðs í síðustu viku en einnig er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.

Um er að ræða 730 milljóna króna lán sem ríki og borg þurfa að veita Hörpunni en ríkisstjórnin hefur einnig samþykkt að veita lánið. Í borgarráði greiddi Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, einn atkvæði gegn því að veita lánið en hann var jafnframt eini borgarfulltrúinn sem lagðist gegn því að reisa Hörpuna með þessum hætti.

Í Fréttablaðinu kemur fram að eigendalánið nú eigi að brúa bilið þangað til sambankalán Austurhafnar og dótturfélaga þess verði endurfjármögnuð með skuldabréfaútboði á næsta ári.

Rétt er að taka fram að framlag hins opinbera, þ.e. ríkisins og borgarinnar, til reksturs Hörpunnar er nú þegar tæpur milljarður króna árlega. Fyrir utan það er heildarkostnaður við Hörpunnar og tengdra verkefna er nú um 27,7 milljarðar króna.