Ísland er í 30. sæti af 36 ríkjum hvað varðar samkeppnishæfni skattkerfa og hefur fallið um tvö sæti milli ára. Sætið ákvarðast af vísitölu sem tekur tillit til fimm undirflokka til að mæla hvort skattkerfi hvers lands ýti undir efnahagslegar framfarir, frekar en að draga úr þeim. Í ljósi aðstæðna telur Viðskiptaráð Íslands niðurstöðurnar áhyggjuefni.

Undirflokkarnir fimm sem mynda vísitöluna eru; skattar á fyrirtæki, skattar á neyslu, skattar á eignir, skattar á erlenda aðila og skattar á einstaklinga. Ísland stendur sig best hvað varðar skatta á fyrirtæki, í 10. sæti en verst hvað varðar skatta á einstaklinga þar sem Ísland er í 34. sæti.

Fram kemur í greiningu VÍ að samkeppnishæfustu löndin hafa lága jaðarskatta og einfalda öflun skatttekna, sem heldur undanskotum og ójafnri skattbyrði í lágmarki. Það er hugveitan Tax Foundation sem birtir vísitöluna.

Íslenska skattkerfið íþyngjandi og flókið í alþjóðlegum samanburði

Sagt er frá því að einn mælikvarði á samkeppnishæfni skattkerfa sé fjöldi klukkustunda sem það tekur einstaklinga og fyrirtæki að standa skil á skattgreiðslum. Samkvæmt téðri vísitölu er kostnaður á Íslandi undir meðaltali OECD og í samræmi við flest Norðurlöndin en þó ekki sérstaklega samkeppnishæfur.

Meðaltími sem tekur einstakling að gera skattskil eru 60 stundir á Íslandi, 48 stundir í Finnlandi og 40 stundir í Sviss en einungis 15 stundir í Noregi.

Enn fremur er sagt frá því að tímamörk á skattinneign sé einn af veikleikum íslenska skattkerfisins. Við taprekstur myndast skattinneign sem fyrirtæki mega nota sem frádráttarlið þegar, og ef það skilar hagnaði í framtíðinni. Á Íslandi má nota eftirstöðvar rekstrartaps síðustu tíu ára en í 20 OECD ríkjum eru engin tímamörk.

Í fyrsta sæti á listanum er Eistlandi með 100 stig og í öðru sæti er Lettland með 84,4 stig. Nýja-Sjáland er er í þriðja sæti og Sviss í því fjórða. Ísland er sem áður sagði í 30. sæti með 55,4 stig, einu sæti á eftir Grikklandi og einu sæti á undan Mexíkó. Í neðsta sæti er Ítalía með 44,3 stig.