Núverandi skattkerfi er komið að endastöð. Það hefur ekki fylgt eftir hraðri samfélagsþróun og eðli þess er byrjað að draga úr nýsköpun. Þetta segir Einar Guðbjartsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hann hélt erindi um efnið á málstofu deildarinnar á dögunum.

Einar segir að hið vestræna skattkerfi hafi orðið til fyrir fyrri heimsstyrjöldina í umhverfi þar sem starfsemi fyrirtækja var landsbundin. Með aukinni alþjóðavæðingu hafi orðið aðskilnaður í skattkerfinu. Fjármögnun, rekstur og ráðstöfun hagnaðar geti verið í þremur mismunandi löndum. „Þannig að þú ert búinn að kljúfa upp fyrirtækjareksturinn og þetta er skattlagt á þremur stöðum,“ segir Einar.

Einfaldast að telja launin

Skatthlutföll á einstaklinga, fyrirtæki og fjármagn eru mismunandi og skattar á launafólk eru gjarnan hærri en aðrir tekjuskattar. Einar segir þetta orsakast af því að hreyfanleiki þessara aðila sé mismikill. Hægt sé að flytja fjármagn á milli landa með því einu að ýta á enter-takka á lyklaborði, en það sé stór og kostnaðarsöm ákvörðun fyrir fjölskyldur að flytja á milli landa. Þær séu í raun bundnar átthagafjötrum.

Tekjuskattar á einstaklinga voru á meðal fyrstu skattanna sem teknir voru upp í núverandi skattkerfi. Einar segir þetta hafa orsakast af samfélagsaðstæðum á sínum tíma. „Það er vegna þess að það var svo gott að telja launin í gamla daga, 1915 kannski – það var eini mælikvarðinn sem var hægt að telja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .