Efri deild indverska þingsins hefur samþykkt viðamiklar umbætur á skattkerfi landsins, sem á að setja á einn sameiginlegan skatt á framleiðslu, sölu og neyslu á vörum og þjónustu.

Á hann að koma í staðinn fyrir fjölda mismunandi skattkerfa eftir héruðum og svæðum landsins og einfalda skattkerfið þannig að auðveldara verði fyrir fyrirtæki framleiða og selja vörur landshorna á milli.

Hraðast vaxandi hagkerfi heims

Mun skatturinn ná til um 7,5 milljón fyrirtækja landsins þegar hann verður kominn í gagnið og eru bjartsýnustu spár á þá leið að umbæturnar muni bæta við 2 prósentustigum við hagvöxt landsins.

Nú þegar hefur Indland farið fram úr Kína sem það hagkerfi sem hraðast vex.

Vörur margsinnis skattlagðar frá einum landshluta til annars

Mun skatturinn koma í staðinn fyrir fjölda annarra skatta, allt frá lottó og skemmtanasköttum til virðisauka, sölu, og lúxusskatta, með einum sameiginlegum skatti. Eins og staðan er í dag þurfa vörur sem fara frá hinni norðlægu borg Haryana til Chennai að vera skattlagðar í sex mismunandi ríkjum landsins.

Gríðarmikið tölvukerfi verður sett upp til að fylgjast með og greiða skattinn, sem allt verður gert rafrænt, en indverska fyrirtækið Infosys mun sjá um kerfið.

Eitt helsta markmið Þjóðarflokks Modi

Skattkerfisumbæturnar hafa verið eitt helsta markmið forsætisráðherrans Narendra Modi síðan hann náði völdum, náðu þær auðveldlega í gegnum neðri deild þingsins þar sem flokkur hans, Indverski þjóðarflokkurinn (PJP) hefur meirihluta, en í efri deildinni var hann ekki með meirihluta og þurfti flokkurinn því að ná samkomulagi við aðra flokka.

Felast þær meðal annars í því að hvert ríki fær tekjutap sem gæti hlotist af skattkerfisbreytingunni bætt næstu fimm árin, en jafnframt er hvort tveggja eldsneyti og áfengi undanskilið breytingunni.

En til að skatturinn verði að lögum, sem vænst er að geti orðið í apríl 2017 þurfa að minnsta kosti helmingur ríkja landsins að samkþykkja breytinguna. Loks þarf svo að ákveða skatthlutfallið sjálft, en búist er við að það verði í kringum 17-18%.