Skúli Eggert Þórðarsson ríkisskattstjóri segir skattkortin, sem tekin voru í notkun 1987, löngu orðin úrelt. Í samtali við Morgunblaðið í dag segir hann að í skoðun sé hvort hægt sé að sleppa skattkortunum alfarið.

Skúli segist ánægður með þann árangur sem náðst hefur með því að innleiða rafræn framtöl og segir að innan tveggja ára sé stefnt að því að framtölin verði einungis rafræn.

Þá eru talsverðar breytingar í uppsiglingu hjá embætti ríkisskattstjóra til að auka skilvirkni skattkerfisins. Ein af þeim er að endurskoða skattkortin, en Skúli segir að slíkar breytingar kalli alltaf á lagabreytingu.