*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 6. maí 2015 14:41

Skattlagning gæti verið á gráu svæði

Í nýrri skýrslu, sem unnin var fyrir slitastjórn Glitnis, er farið yfir skilyrði sem lausn á færsluvandanum þarf að uppfylla.

Ritstjórn

Til að leysa þann vanda sem innlendar fjáreignir erlendra aðila fela í sér þarf að finna lausn sem uppfyllir fimm skilyrði, að mati þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, en þeir unnu skýrslu um þá kosti sem eru í stöðunni til að ljúka slitameðferð föllnu bankanna. Skýrslan var unnin að beiðni slitastjórnar Glitnis.

Það er skoðun skýrsluhöfunda að fimm nauðsynleg skilyrði myndi ramma til þess að tryggja almannahagsmuni við lausn vandans:

  1. Útgreiðslur á kröfum úr slitabúunum verða að rúmast innan fjármagnsjafnaðar og vera hlutlausar gagnvart fjármagnsflæði til og frá landinu.
  2. Ráðstöfun innlendra eigna slitabúanna verði ekki til þess að skapa hættu á greiðslujafnaðarvanda eftir að kröfuhafar hafa fengið greitt, s.s. að lausafé leiti úr landinu eða fjármálastöðugleika verði með einhverjum hætti ógnað.
  3. Útgreiðslurnar verða að eiga sér stað til hliðar við hinn opinbera gjaldeyrismarkað þannig að markaðurinn verði ekki fyrir truflunum, s.s. vegna spákaupmennsku.
  4. Koma verður í veg fyrir að eftirlegukindur (hold-outs) séu til staðar eftir að útgreiðsla hefur átt sér stað sem gætu beðið færis þar til gjaldeyrisviðskipti verða aftur frjáls.
  5. Ferlið verður að vera án lagalegrar áhættu ríkissjóðs þannig að kröfurnar, sem standa á slitabú bankanna, breytist ekki í kröfur á íslensku þjóðina.

Í skýrslunni segir að þessi skilyrði sé annars vegar hægt að uppfylla með nauðasamningi slitabúanna og hins vegar með skattheimtu. „Nauðasamningur er nýtur samþykkis tilskilins meirihluta kröfuhafa og er staðfestur af íslenskum dómstóli uppfyllir sjálfkrafa 4.–5. skilyrði. Slíkur samningur bindur alla kröfuhafa og hefði engin lagaleg eftirmál fyrir ríkissjóð. Framfylgd 1.–3 . skilyrðis veltur hins vegar á því hvernig almennir kröfuhafar eru tilbúnir að ráðstafa innlendum eignum sínum samkvæmt slíkum samningi. Líklegt er að lykilatriðið við slíka samninga sé hvernig eignarhaldi á nýju bönkunum verði ráðstafað, s.s. hvort slitabúunum verði gefið færi á því að koma þeim í verð fyrir erlendan gjaldeyri og minnka þannig færsluvandann sem því nemur.

Skattlagning getur uppfyllt 1.–3. skilyrði en skilur 4. og 5. skilyrði eftir í óvissu þar sem slík skattlagning yrði alltaf á lagalega gráu svæði. Til þess að skattlagning geti gengið upp án bótaskyldu þarf hún að vera miðuð nákvæmlega að lausn færsluvandans en engum markmiðum öðrum," segir í skýrslunni.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is