Í byrjun mánaðar greindi Fréttablaðið frá því að nokkur verktakafyrirtæki hefðu í samstarfi við Samtök iðnaðarins stefnt Reykjavíkurborg. Kemur umrædd stefna til vegna meintra ólögmætra innviðagjalda, en undanfarin ár hefur borgin innheimt umrædd gjöld í tengslum við uppbyggingu á húsnæðismarkaði. MótX er eitt af þeim verktakafyrirtækjum sem standa að fyrrnefndri málsókn, en Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformaður félagsins, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Dómstólar hafa í gegnum tíðina bent á það að það þurfi samkvæmt stjórnarskránni skýra lagaheimild til álagningar skatta. Í mínum huga er þetta ekki flókið mál; innviðagjöldin eru skattlagning án lagaheimildar. Það er grunnatriði málsins. Borgin hefur sett fram þau rök að þetta sé einkaréttarsamningur, en verktakar hafa neyðst til þess að skrifa undir þetta því án þess fengju þeir ekki byggingarleyfi. Við erum sannfærðir um að þetta séu ólögleg gjöld sem gera það að verkum að íbúðaverð hækkar. Það er alltaf að lokum íbúðarkaupandinn sem endar á að borga brúsann.

Við erum t.d. í dag með stórt verkefni við Elliðabraut í Norðlingaholti, en þar þarf enga innviði. Ég hélt að þéttingarstefna borgarinnar snerist um að nýta innviðina sem til eru. Af hverju er þá verið að rukka okkur um einhver innviðagjöld, þegar við erum að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar? Ég er alveg fylgjandi því að þétta byggð, en það er ekki hægt að skrúfa fyrir öll úthverfi. Það er mun ákjósanlegra að blanda saman úthverfabyggðum og þéttingu byggðar. Að þessu leyti er borgin á villigötum," segir Vignir.

Vignir reiknar með að málið verði tekið fyrir á öllum dómsstigum, enda sé um að ræða mál sem gæti reynst fordæmisgefandi. „Það var óskað eftir að málið fengi flýtimeðferð, en þeirri bón var hafnað. Það er þó ljóst að þessi málarekstur getur tekið sinn tíma, en mér skilst að bjartsýnustu spár geri ráð fyrir að hann gæti tekið a.m.k. tvö ár, þegar gert er ráð fyrir áfrýjunum. Það er hættuleg þróun ef stjórnmálamenn geta komist upp með að leggja á alls konar gjöld eftir eigin hentugleika án lagastoðar."

N ánar er rætt við Vigni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .