Fjórtán ára barátta yfirvalda á meginlandi Evrópu til að skattleggja sparnað borgara sinn erlendis hefur misheppnast eftir að fjárfestar í löndum eins og Sviss og Lúxemborg hafa notfært sér glufur í umdeildri sparnaðarlöggjöf. Á þeim fyrstu sex mánuðum sem löggjöfin var í gildi hefur Sviss, sem er þekkt fyrir bankastarfsemi - aðeins aflað 100 milljónum evra, sem samsvarar 9,6 milljörðum króna, í skatttekjur af sparnaði borgara ESB ríkjanna.

Fjárfestar voru fljótir að finna glufur í sparnaðartilskipun ESB. Lúxemborg skilaði eingöngu 48 milljónum evra á seinni helmingi síðasta árs, Jersey 13 milljón evrum, Belgía 9,7 milljón evrum og Liechtenstein 2,5 milljón evrum. Þessi niðurstaða er löndum eins og Þýskalandi mikil vonbrigði, enda höfðu vonir staðið til að tilskipunin myndi verða til þess að ríkissjóðir ESB landanna ykju skatttekjur sínar. Þýskir skattgreiðendur eru taldir hafa komið meira en 300 milljörðum evra fyrir í löndum þar sem skattalöggjöfin er fjármagnseigendum hagstæð.

Laszlo Kovacs, sem fer með skattamál ESB, hefur fyrirskipað endurskoðun tilskipunarinnar sem tók gildi 1. júlí í fyrra. Hann segir þó of snemmt að meta árangurinn að fullu. "Framkvæmdastjórnin [ESB] gerir sér grein fyrir áhyggjum manna af því hvernig tilskipunin hefur verið túlkuð," sagði talsmaður Kovacs.

Samkvæmt tilskipuninni þurfa lönd að leggja allt að 35% staðgreiðsluskatt á erlendan sparnað borgara ESB ríkja - og skila megninu af tekjunum til ríkissjóðs eða veita yfirvöldum upplýsingar um sparnað ESB þegna í landinu. Lögin voru samþykkt eftir 14 ára deilur milli aðildarríkja ESB og eftir erfiðar samningaviðræður við lönd eins og Sviss sem ekki eru aðilar að bandalaginu. Tilskipunin er hins vegar uppfull af glufum, vegna loðins og tvíræðs orðalags eftir að upprunalega uppkastinu var snúið úr ensku á frönsku og svo aftur á ensku.