Vegna hækkunar á virðisaukaskatti þurfa breskir launþegar að vinna þremur dögum lengur á næsta ári til að vinna fyrir skattgreiðslum sínum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bresku hugveitunnar the Adam Smith Institute sem árlega gefur út skýrslu um „skattfrjálsa“ daginn, þ.e. þann dag á árinu sem launþegar hætta að vinna fyrir skattgreiðslum og fara að vinna fyrir sjálfa sig.

Þann 4. janúar nk. hækkar virðisaukaskattur í Bretlandi um 2,5 prósentustig, úr 17,5% í 20%. Samkvæmt útreikningum Adam Smith Institute verður skattfrjálsi dagurinn því 30. maí 2001 en samkvæmt hugveitunni vinna breskri launþegar fram að því eingöngu fyrir ríkið.

Skattfrjálsi dagurinn hefur ekki verið svo seint í fjögur ár en árið 2007 var skattfrjálsi dagurinn í fyrstu vikunni í júní.

Tom Clougherty, framkvæmdastjóri Adam Smith Institute segir í samtali við BBC að Bretar séu óþarflega „yfirskattaðir“ eins og hann kemst að orði.

„Sú staðreynd að við verjum fyrstu fimm mánuðum ársins í að vinna fyrir ríkið og aðeins sjö mánuðum fyrir okkur sjálf er lýsandi dæmi um of stóra og eyðslusama ríkisstjórn,“ segir Clougherty.

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, hefur þegar lýst því yfir að hækkun virðisaukaskattsins sé ekki tímabundin heldur liður í því að auka tekjur ríkisins til að loka fjárlagagati. Hins vegar verði skatturinn lækkaður ef hagnaður verði að rekstri ríkissjóðs, þvert á spá fjármálaráðuneytisins.