Í úttekt Viðskiptaráðs Íslands á þeim breytingum sem hafa átt sér stað á skattkerfinu frá árinu 2007 kemur fram að brýnt sé að breyta fjármagnstekjuskattinum í landinu með þeim hætti að hann verði lagður á raunávöxtun en ekki nafnávöxtun.

„Skatturinn er lagður á nafnávöxtun, en sögulega séð hefur verðbólga á Íslandi verið mun hærri en í öðrum ríkjum, sem leiðir til þess að raunskattlagning fjármagnstekna er mun hærri hér á landi en á Norðurlöndunum,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, í samtali við Viðskiptablaðið, en Björn gefur lítið fyrir að aftenging verðbólgu við skattlagningu geti dregið úr hvatanum til að halda aftur af verðbólgunni.

„Í raun er þetta öfugur hvati, því eftir því sem verðbólgan eykst, þá eykst raunskattlagning fjármagnstekna. Höfum við því hvatt til þess að annaðhvort verði gjaldhlutfallið lækkað eða skatturinn lagður á raunávöxtun. Við kunnum vel að reikna út verðtryggð lán og vexti af þeim, og höfum við lagt til að skoðað sé að gera það sama við fjármagnstekjur,“ segir Björn.

Björn segist vonast til þess að ný ríkisstjórn muni taka á þessum stóru málum.

„Árangurinn af þeim jákvæðu skattbreytingum sem hafa átt sér stað síðustu ár ætti að hvetja ríkisstjórnina til dáða til að halda áfram á þessari braut.“