Fjársýsluskattur á lífeyrissjóði verður felldur út úr frumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum samkvæmt Fréttablaðinu í dag. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar samþykkti umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu í gærkvöld. Það verður til umræðu á þingi í dag.

Þá verður fjársýsluskattur á laun starfsmanna fjármálafyrirtækja lækkaður um tæpan helming, úr 10,5 prósentum í 5,45 prósent. Þess í stað verður lagður sérstakur sex prósenta tekjuskattur á hagnað fjármálastofnana umfram einn milljarð. Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, segir að þetta lækki tekjur ríkissjóðs á rekstrargrunni en hafi ekki áhrif á greiðslugrunn ársins 2012, en við hann miðast efnahagsáætlanir ríkisstjórnarinnar. Mörkin á milli fyrsta og annars þreps í almennum tekjuskatti hækka um 9,8 prósent samkvæmt tillögunum, en ekki 3,5 prósent líkt og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Mörkin fyrir annað þrep verða 230 þúsund krónur. Mörk þriðja þreps verða óbreytt, 704 þúsund krónur að því er kemur fram í Fréttablaðinu í dag.