Leiðtogar ESB ríkjanna munu líklega gefa grænt ljós á tillögu framkvæmdastjórnar ESB um að setja tímabundinn skatt á ofurhagnað þeirra orkufyrirtækja sem eiga hlut í þeim miklu verðhækkunum sem hafa verið á gasi og orku að undanförnu. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg .

Leiðtogarnir munu funda dagana 24. - 25. mars. Þar verður rætt um leiðir til að létta undir hópum sem eru fjárhagslega viðkvæmir og styðja við fyrirtæki innan sambandsins á sama tíma og fordæmalaus orkukrísa ríkir, meðal annars vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Þannig væri hægt að auka skattheimtu á orkufyrirtæki sem eru óháð gasi og hafa því ekki þurft að kljást við hækkandi framleiðslukostnað. Skatttekjurnar væri hægt að nýta til að aðstoða viðkvæmari hópa, að því er kemur fram í grein hjá Bloomberg.

Sjá einnig: 5,9% verðbólga á evrusvæðinu

Verðbólga á evrusvæðinu mældist 5,9% í febrúar. Orkuverð hefur leitt verðbólguna að undanförnu. Árshækkun orkuverðs á evrusvæðinu var 31,7% í febrúar, en áætlað er að verðbólgan á evrusvæðinu mælist yfir 6% í mars.

Undir núverandi markaðsaðstæðum gæti hagnaður orkufyrirtækja á árinu numið allt að 200 milljörðum evra, samkvæmt Alþjóðaorkumálastofnuninni.

Talið er að leiðtogar ríkjanna muni einnig stefna á að vinda ofan af innflutningi á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Um 40% af innflutningi ESB ríkja á jarðgasi kemur frá Rússlandi og fjórðungur af innflutningi ríkjanna á hráolíu.