Yfirskattanefnd hefur staðfest niðurstöðu Ríkisskattstjóra, sem endurákvarðaði opinber gjöld Karl Wernerssonar fjárfestis fyrir tekjuárin 2005 til 2008, fyrir utan það hvernig skattaleg meðferð 739 milljón króna söluhagnaðar vegna bréfa í Actavis eigi að fara fram.

Þvert á niðurstöðu Ríkisskattstjóra verður sú upphæð skattlögð sem arður en ekki tekjur, enda bréfin í eigu sjálfstæðs félags, ekki beint í eigu Karls. Málið hófst með rannsókn skattrannsóknarstjóra haustið 2011 að því er Fréttablaðið greinir frá en tilefni rannsóknarinnar var bréf frá ríkisskattstjóra um að Karl lægi undir grun um skattsvik.

Rúmlega 1,1 milljarður sagður ranglega talin fram sem arður

Í rannsókninni segir að aflandsfélag Karls, Dialog Global Investment Ltd á Bresku Jómfrúaeyjum virðist einungis hafa verið stofnað í skattasniðgönguskyni. Segir þar jafnframt að skattframtöl tekjuáranna 2005 til 2008 hafi verið efnislega röng, því rúmlega 1,1 milljarður króna frá félaginu hefði verið ranglega talin fram sem arður en ekki tekjur.

Þannig hefðu rúmlega 327 milljóna vaxtatekjur af láni Karls til félaga í eigin eigu ekki verið getið sem og að Karl hafði ekki skilað tekjuskatti af 739 milljóna hagnaði af sölu af fyrrnefndum hlutabréfum í Actavis.

Kærði niðurstöðu Ríkisskattstjóra

Karl kærði niðurstöðu Ríkisskattstjóra til Yfirskattanefndar sem staðfesti að hluta niðurstöðu Ríkisskattstjóra en féllst á að það hefði verið DGI sem stóð í viðskiptunum með bréf Actavis, en ekki Karl sjálfur. Hins vegar var Dráttarvaxta- og málskostnaðarkröfu Karls hafnað.

Jón Elvar Guðmundsson lögmaður Karl segir niðurstöðuna jákvææða því heilmikil álagning vegna söluhagnaðar hafi verið felld úr gildi „[E]n við höfum farið fram á ndurupptöku hjá YSKN vegna milljónanna 1.150 sem nefndin taldi laun en ekki arð,“ segir Jón Elvar sem segir að í upphafi verið skoðað hvort DGI hefði rekstrarheimildir til að greiða út arð.

Þegar gögn úr ársreikningum og upplýsingar af bankareikningum hafi verið lögð fram hafi deilan fyrir Yfirskattanefnd farið að snúast um hvort fyrir hafi legið ákvörðun um heimild til arðsúthlutunar.

„Í skýrslu skattrannsóknarstjóra lá fyrir umboð Karls til að taka ákvörðun um úthlutun arðs fyrir félagið. Hann taldi félagið fram og lagði fram upplýsingar sem sýna fram á að allar forsendur fyrir arðsúthlutun voru fyrir hendi. Á þeim grundvelli höfum við farið fram á endurupptöku á málinu hjá YSKN.“