Umferð um Eyrarsundsbrúnna milli Svíþjóðar og Danmerkur hefur aukist um nærri 30% á þessu ári og er búist við því að umferðin muni aukast enn frekar á næsta ári.

Í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins segir að ástæðan fyrir þessu sé einföld og hafi lítið að gera með dálæti Svía á frændum sínum.

Skattar á laun í Danmörku eru lægri en í Svíþjóð og um áramótin verða skattar lækkaðir enn frekar í Danmörku. Það borgar sig því fyrir Svía sem búa á Skáni að keyra yfir til Danmerkur og vinna þar en eftir sitja sænskir atvinnurekendur í erfiðleikum með að manna fyrirtækin sín.

Svíar eru að verða undir í skattasamkeppni við nágranna sína og samkeppnisstaða þeirra fer versnandi þar sem laun í Danmörku eru að jafnaði hærri en í Svíþjóð, en tekjuskattur lægri, samkvæmt því sem segir í fréttinni.